Lilja Mósesdóttir

maí 21, 2016
by liljam
0 comments

Losun hafta á forsendum almennings en ekki hrægamma

Það er algjörlega óásættanlegt að „losa höftin“ með því að láta íslenskan almenning taka á sig stórfelda lífskjaraskerðingu til að hámarka verðmæti eigna sem hrægammar keyptu með miklum afslætti á brunaútsölu eftir hrun. Stjórnvöld sem ekki skattleggja allar innistæðulausar bólueignir (eignir kröfuhafa og aflandskrónueigna) við „losun hafta“, eins og ég lagði m.a. til í nóvember 2008, eru ekki að gæta hagsmuna almennings og heldur ekki að leysa snjóhengjuvandann varanlega.  Skattlagning er ekki brot á eignarrétti hrægamma og því eina færa leiðin til að losa okkur undan oki þeirra. Gæti stjórnvöld ekki hagsmuna almennings með skattlagningu snjóhengjunnar kemur til kasta forseta Íslands að senda lög um losun hafta í þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er því mikilvægt að kjósa forseta sem mun senda slík lög í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert var í Icesave málinu.

Hrægömmum sem keyptu eftir hrun verðlitlar kröfur á föllnu bankana og verðlausar aflandskrónueignir tókst með aðstoð AGS, ríkisstjórnarflokkanna eftir hrun, seðlabankans og innlendra sérfræðinga að tryggja sér hagstæðustu leiðina við „losun hafta“. Ávinningur íslenska stjórnkerfisins er klapp á bakið frá „alþjóðasamfélaginu“ fyrir að standa vörð um hagsmuni hrægamma og ríkulegir bónusar til sérfræðinga hrægammanna. Samstarfsaðilar hrægammanna á Íslandi og fjölmiðlar þeirra lögðu mikið á sig í aðdraganda síðustu kosninga til að tryggja kjör flokka sem ekki ógnuðu hagsmunum þeirra. Það tókst og hrægammarnir fengu 400-500 milljörðum meira í sinn hlut við uppgjör föllnu bankanna, þar sem þeim var aðeins gert að greiða stöðugleikaframlag en ekki stöðugleikaskatt.

Frá hruni hefur skuldsetti hluti þjóðarinnar verið neyddur með aðstoð lífeyrissjóðanna að fjármagna ávöxtun verðlítilla eigna hrægamma sem hafa verið lokaðar inni í hagkerfinu. Ávöxtunin í formi vaxta og verðtryggingar er hærri en nokkur samanburðarþjóð treystir sér til að standa undir. Evrópumetið í ávöxtun fjármagns hefur étið upp eignir skuldsettra heimila og fyrirtækja ásamt því að ræna lífsgæðum frá unga fólkinu okkar.  Unga fólkið hefur því ekki haft sömu tækifæri til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og nýta menntun sína á vinnumarkaði eins og kynslóðarinar á undan henni. „Losun hafta“ nú mun ekki losa þjóðina undan vaxtaokrinu, þar sem lokka á hrægamma til að halda áfram að ávaxta fé sitt á Íslandi með evrópumeti í vaxtastigi – þökk sé Seðlabanka Íslands sem kann engin önnur ráð við efnahagsvanda. Auk þess þarf að tryggja lífeyrissjóðunum, sem ekki falla undir „losun hafta“, viðunandi ávöxtun eftir mikla rýrnun sjóðanna í hruninu.

Losun aflandskróna út úr hagkerfinu er gleðiefni fyrir hrægamma sem keyptu aflandskrónueignir á brunaútsölu eftir hrun og íslenska fjárfesta sem hafa skráð eignarhaldið á erlend aflandsfélög. Þessir aðilar geta nú farið út úr hagkerfinu með „eignir sínar“ á meðan íslenskur almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir sitja eftir innan fjármagnshafta. Hér er í raun verið að verðlauna þá Íslendinga sem nota aflandsfélög til að fela eignarhald sitt til að sniðganga lög og skatta.

Í nýjasta frumvarpinu um losnun hafta er viðurkennt að ekki verði hægt að losa út allar aflandskrónueignir, þar sem íslenska þjóðin hefur ekki efni á að  fjármagna útstreymi 319 milljarða og annarra krónueigna á leið úr landi. Það verður því áfram hætta á að seðlabankinn missi stjórn á útstreymi innistæðulausa bólufjármagnsins við losun hafta. Það mun leiða til lækkunar á gengi krónunnar, aukinnnar verðbólgu og þyngri vaxtabryði skuldsettra heimila og fyrirtækja. Slíka áhættu hafa stjórnvöld ekkert umboð til að taka og eiga því að grípa til skattlagningar  til að eyða vandanum.

mars 22, 2015
by liljam
0 comments

Hagsmunir þjóðarinnar eða hrægammanna

Birtist í Fréttablaðinu 14. MARS 2015

http://www.visir.is/hagsmunir-thjodarinnar-eda-hraegammanna/article/2015703149991

Baráttunni við kröfuhafa er enn ekki lokið, þrátt fyrir að Ísland hafi unnið Icesave-málið, „útskrifast með láði frá AGS“ og sent nokkra „bankaræningja“ í fangelsi. Fyrsta hluta baráttunnar lauk í janúar 2013 þegar EFTA-dómstóllinn hafnaði því að íslenskir skattgreiðendur hefðu brotið gegn tilskipun um innistæðutryggingar með því að taka ekki á sig ábyrgð á greiðslu lágmarkstryggingar til innistæðueigenda í Bretlandi og Hollandi.

AGS er aftur kominn til Íslands og nú til að aðstoða við lausn peningahengjunnar sem var búin til fyrir hrun með sölu svokallaðra jökla- og krónubréfa til áhættufjárfesta. Þegar ljóst var orðið að íslensku bankarnir væru að falla reyndu erlendu áhættufjárfestarnir að selja þessar eignir og koma aflandskrónueignum sínum úr landi. Ef kostnaður Íslendinga af hruninu á ekki að slá heimsmet verður lausn hengjunnar að taka mið af krísuregluverki ESB frá 2013.

Fjármálakreppan á Íslandi er skv. útreikningum AGS meðal 10 dýrustu í heimi hvað varðar beinan útlagðan kostnað skattgreiðenda og skuldsetningu ríkissjóðs. Frá 2008 til 2011 nam beinn útlagður kostnaður skattgreiðenda 44% af vergri landsframleiðslu (VLF) og skuldir ríkissjóðs jukust um 72%, þrátt fyrir að Ísland hafi ekki haft burði til að veita bönkum í fallhættu ríkisaðstoð eins og gert var m.a. á Írlandi.

Þegar bankarnir á Íslandi hrundu 2008 féll gengi íslensku krónunnar um 60% gagnvart evrunni. AGS brást við með því að innleiða tímabundin höft sem settu m.a. þak á krónuupphæðina sem hægt var að skipta yfir í erlendan gjaldeyri. Fjármagnshöftin eru enn við lýði, þrátt fyrir að þau séu brot á EES-samningnum. Höftin hafa hins vegar komið í veg fyrir botnlaust gengishrun krónunnar af völdum aflandskróna á leið úr landi (um 40% af VLF árið 2008).

Áður en AGS fór frá Íslandi árið 2011 aðstoðaði sjóðurinn Seðlabanka Íslands við að koma á uppboðsmarkaði fyrir annars vegar þá sem vildu fara með krónueignir sínar úr landi á lægra gengi og hins vegar fjárfesta sem vildu kaupa krónur með afslætti. Uppboðsmarkaðurinn hefur minnkað aflandskrónuvandann og hann er núna um 16% af VLF. Peningahengjan mun hins vegar stækka fljótlega og verða um 42% af VLF þegar hrægammar og aðrir kröfuhafar fá greiddar peningaeignir úr þrotabúum gömlu bankanna. Aðrar eignir þrotabúanna á leið til hrægamma og annarra kröfuhafa eru ekki peningaeignir heldur m.a. verðbréf og er áætlað að þær nemi um 76% af VLF.

Á herðar skattgreiðenda
Tillögur sem heyrst hafa frá sérfræðingum ríkisstjórnarinnar um afnám hafta fela í sér útgönguskatt á bilinu 20-45% og tilboð um ríkisskuldabréf til 30 ára á afslætti. Með því að hvetja kröfuhafa gömlu bankanna til að festa eignir sínar í 30 ára ríkisskuldabréfum er í raun verið að leggja til að skuldum einkafyrirtækja verði breytt í ríkisskuldir. Stjórnvöld munu sennilega „réttlæta“ þennan gjörning með því að verið sé að endurfjármagna ríkisskuldir á afar lágum vöxtum (lægri en verðbólga).

Því miður mun 45% útgönguskattur ekki duga til að koma í veg fyrir hrun krónunnar. Gjaldeyriseign þjóðarinnar nemur ekki nema um 3% af VLF og útstreymi eftir að 45% útgönguskattur hefur verið lagður á gæti numið allt að 23% af VLF. Gengishrun krónunnar af völdum peningahengjunnar mun leiða til gífurlegrar hækkunar á verði innfluttra vara og verðtryggðra lána.

Stjórnvöld gætu notað lán í erlendum gjaldmiðlum frá AGS og norrænu þjóðunum til að fjármagna útstreymi peningahengjunnar og komið þannig í veg fyrir gengishrun. Ef þessi erlendu lán verða notuð eða genginu leyft að falla til að leysa peningahengjuvandann, þá er í raun verið að koma byrðum fjármálakreppunnar af baki hrægammasjóða og áhættufjárfesta yfir á herðar skattgreiðenda sem eru með laun í krónum og verðtryggð lán.

Útgönguskatturinn þarf að vera mun hærri en 45% til að lausn peningahengjunnar verði í samræmi við reglur ESB frá 2013 um að eigendur banka og kröfuhafar eigi að taka á sig kostnaðinn vegna gjaldþrots þeirra. Eigendur gömlu bankanna töpuðu andvirði hlutabréfa sinna við fall þeirra og margir kröfuhafar tóku á sig 70-96% lækkun á nafnvirði krafna sinna þegar þeir seldu kröfurnar hrægammasjóðum og áhættufjárfestum. Nú hóta þessir sömu hrægammasjóðir og áhættufjárfestar ríkinu lögsókn fái þeir ekki kröfur sínar nánast að fullu endurgreiddar.

AGS, „vinstristjórnin“ og hægristjórnin sem nú situr hafa fram til þessa ekki haft hugrekki til að leysa peningahengjuvandann í samræmi við regluverk ESB frá 2013. Á meðan stækkar hengjan og ef hún fer af stað verður Ísland sýningardæmi um hvernig hrægömmum og öðrum kröfuhöfum tókst að koma stórum hluta af byrðum sínum yfir á launafólk, skattgreiðendur og skuldsett fyrirtæki og heimili. Hrynji peningahengjan yfir okkur kemst Ísland aftur í heimspressuna – ekki vegna eldgoss heldur mótmæla og uppþota almennings.

Þessi grein birtist jafnframt á http://www.socialeurope.eu/

nóvember 23, 2014
by liljam
0 comments

Leggjum á útgönguskatt og tryggjum hagsmuni þjóðarinnar.

Starfsfólk hrægammasjóða á Íslandi og andstæðingar útgönguskatts keppast nú við að telja þjóðinni trú um að slíkur skattur sé ólöglegt eignarnám. Slíkar fullyrðingar eru rangar og settar fram til að drepa niður allar tilraunir til að tryggja að almenningur fái stærstan hluta loftbóluhagnaðarins sem myndaðist þegar  forgangskröfur í þrotabúin gengu kaupum og sölum eftir hrun á 4-30% af nafnvirði krafnanna.

Eftir bankahrunið keyptu hrægammasjóðirnir forgangskröfur sem skráðar voru á 100 kr. fyrir 4-30 kr. Þegar greitt verður úr þrotabúunum fá þeir 100 kr. greiddar fyrir þessar forgangskröfur og hagnað á bilinu 96-70 kr. sem rennur beint í vasa þeirra ef ekki verður lagður á útgönguskattur. AGS áætlar að kostnaður skattgreiðenda af hruninu nemi um 750 milljörðum (44% af VLF árið 2011).

Eignarhlutur hrægammasjóðanna nemur í raun aðeins 4-30 kr. Í ljósi þess að einkaaðilar en ekki skattgreiðendur ollu hruni bankanna og gengisfellingu krónunnar er réttlætanlegt að útgönguskattur sé lagður á sem tryggir að ríkissjóður (skattgreiðendur) fái svo til allan hagnað hrægammasjóðanna.

Útgönguskattur er í raun leið skattgreiðenda til að þvinga hrægammasjóði til að sýna samfélagslega ábyrgð.  Reynsla annarra þjóða af samningum við hrægammasjóði (sbr. Argentína) sýnir að sjóðirnir eru ekki tilbúnir til að sýna samfélagslega ábyrgð án þvingunar.

Útgönguskatturinn þarf að vera mun hærri en 35% til að tryggja að almenningur fái stærsta hluta hagnaðarins hrægammasjóðanna og til að koma í veg fyrir gengishrun krónunnar þegar greitt verður úr þrotabúunum. Útgönguskatt þarf að leggja á í tveimur hlutum. Fyrst á útgreiðsluna úr þrotabúunum (Útgöngugjald) og síðan á fjármagn úr m.a. þrotabúunum og aflandskrónur sem skipt er yfir í erlendan gjaldeyri til að koma í veg fyrir gengislækkun krónunnar (Liljuskattur).

Þessi tvískipti útgönguskattur er í raun önnur aðferð til að ná fram sama markmiði og liggur til grundvallar Skiptigengisleiðinni, þ.e. að tryggja hagsmuni almennings í lokauppgjöri hrunsins (http://liljam.is/greinasafn/2013/mai-2013/lausn-skulda-og-snjohengjuvandans/)

Nú verða íslensk stjórnvöld að standa í lappirnar og verja hagsmuni þjóðarinnar!

júlí 11, 2013
by liljam
0 comments

Eitruð efnahagsaðstoð AGS við Grikkland og Ísland

Mig langar til að vekja athygli á grein um efnahagsaðstoð AGS við Ísland og Grikkland sem byggð er á lokaskýrslum sjóðsins um árangur hennar í löndunum tveimur og heimsókn minni til Grikklands í vor. Greinina fékk ég birta í Social-Europe sem er tímarit fyrir gagnrýna og framsækna umræðu um málefni sem brenna á Evrópubúum. Í tímaritið skrifa fræðimenn, stjórnmálafólk og áhrifafólk innan verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu um alþjóðamál, pólitíska hagfræði, atvinnustefnu og málefni aðila vinnumarkaðarins.

Niðurstaða greinar minnar er að nauðsynlegt sé fyrir kreppulönd og alþjóðastofnanir að draga lærdóma af umdeildri efnahagsaðstoð AGS við Ísland og Grikkland. Of bjartsýnar áætlanir sjóðsins um hagvöxt kreppuþjóða draga úr þörfinni fyrir að afskrifa skuldir og þjóna því fyrst og fremst hagsmunum banka og kröfuhafa. Áhersla efnahagsaðstoðar AGS þarf að færast frá kreppuaukandi niðurskurði lífskjara til lækkunar á ósjálfbærri skuldsetningu til að tryggja hagvöxt eða að þjóðir geti vaxið út úr kreppunni.  Efnahagsaðstoð sem aðeins tryggir hagsmuni þeirra ríku og helstu hluthafa í AGS grefur undan trúverðugleika sjóðsins og félagslegri samheldni í löndum sem neyðast til að leita aðstoðar hans.

Slóðin á greinina er http://www.social-europe.eu/2013/07/the-imf´s-toxic-bail-out-of-greece-and-iceland/