Lilja Mósesdóttir

Ríkisstjórn á villigötum. Almenn leiðrétting gagnast flestum.

Í greiningu Seðlabankans á skuldavanda heimilanna sem kynnt var í síðustu viku kemur fram að almenn leiðrétting muni fækka heimilum í greiðsluvanda um 7.600 og álíka mörgum úr skuldavanda eða samtals um 15.000 heimilum. Til samanburðar má geta þess að 110% leiðin og sérstök vaxtaniðurgreiðsla fækkuðu heimilum í greiðsluvanda aðeins um 1.450.  Í upphafi árs 2011 innleiddi ríkisstjórnin 110% leiðina og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu til að aðstoða skuldsett heimili sem voru í mestri neyð. Skuldaúrræðin fá hins vegar falleinkunn á þennan mælikvarða ríkisstjórnarinnar, þar sem þau féllu að verulegu leyti í skaut heimila sem ekki eru í greiðsluvanda. Enn á ný er ætlunin að leysa greiðsluvanda skuldsettra heimila í gegnum bótakerfið til að „óráðsíu“ fólkið njóti örugglega ekki góðs af þeim. Tekjutengdar barna- og vaxtabætur draga úr einkennum skuldakreppu heimilanna tímabundið en leysa hana ekki og  gagnast fáum heimilum.

Óráðsían og gamla fólkið

Hin svokallaða norræna vinstristjórn hefur hafnað almennri leiðréttingu lána á þeim forsendum að verið væri að afskrifa skuldir „óráðsíufólks“ og að kostnaðurinn lenti á gamla fólkinu sem fengi lægri lífeyri. Hópurinn sem er í mestu erfiðleikunum eru ungar barnafjölskyldur, tekjulágir einhleypingar og þeir sem tóku verðtryggð húsnæðislán – ekki síst seint í uppsveiflunni. „Óráðsían“ að mati ríkisstjórnarinnar felst því í barnaeignum sem þrýsta á stærra húsnæði, lágum launum sem ekki standa undir séreignastefnunni, kaupum á húsnæði í fasteignabólu með verðtryggðum lánum. 110% leiðin og sérstaka vaxtaniðurgreiðslan kostuðu 100 milljarða en Seðlabankinn áætlar að 20% leiðrétting muni kosta 261 milljarð. Við sem krefjumst 20% leiðréttingar höfum lagt til að aðgerðin verði fjármögnuð með útgáfu skuldabréfs í vörslu eignarhaldsfélags Seðlabankans sem greitt yrði upp á löngum tíma með lægri vaxtatekjum bankanna. Forysta stjórnarflokkanna hefur úthrópað þessa fjármögnunartillögu og ranglega líkt við peningaprentunarleið. Viðbrögðin afhjúpa vanþekkingu á skuldavandanum og andúð á aðgerðum í anda norræna velferðarkerfisins.

Vanþekking

Ráðleggingar hagfræðinga sem kynnt hafa sér fjármálakreppur er að flýta þurfi skuldaaðlögun fyrirtækja og heimila í kjölfar bankahruns til að koma í veg fyrir að rekstarhagnaður fyrirtækja og afgangur heimilanna verði notaður til að greiða niður skuldir í stað fjárfestinga. Skuldaúrræði ríkisstjórninar hafa flest tekið óratíma að útfæra, þar sem einstaklingar og fyrirtæki þurfa að uppfylla þröng skilyrðum til að fá aðstoð. Hagkerfi þar sem fyrirtæki og heimili sjá meiri hag í því að greiða niður skuldir en að fjárfesta eru mun lengur að komast út úr fjármálakreppu. Andstaða ríkisstjórnina við almenna leiðréttingu lána, afnám verðtryggingar og skatt á gengishagnað útflutningsfyrirtæja hefur ýtt undir uppgreiðslu lána á síðasta og þessu ári. Uppgreiðsla lána hefur orðið til þess að stór hluti hagvaxtarins eftir bankahrunið hefur runnið út úr landinu og í vasa kröfuhafa. Þetta mun draga úr líkum á langvarandi hagvexti. Auk þess hafa miklar uppgreiðslur útflutningsfyrirækja á erlendum lánum á þessu ári veikt gengi krónunnar en þessi fyrirtæki búa við 25% lægra gengi en meðaltal síðustu 30 ára. Lægra gengi krónunnar hækkar vöruverð og þar með verðtryggingu lána. Sífellt erfiðar verður fyrir heimilin að standa í skilum og skuldavandinn eykst.

Norræna leiðin

Almenn leiðrétting lána um 20% er í anda norræna velferðarkerfisins, þar sem hún felur í sér aðgerð sem nær til allra sem orðið hafa fyrir sama áfallinu eða forsendubrestinum. Grundvallarhugsun norræna velferðarkerfisins er sú að allir hafi jafnan rétt til þjónusta og að bætur séu ekki tekjutengdar en það er nauðsynlegt til þess að millistéttin, sem greiðir hlutfallslega mest í skatta, sjái hag sinn í að fjármagna í gegnum skattgreiðslur öflugt velferðarkerfi. Velferðarkerfi sem ekki felur í sér niðurlægjandi ferli þar sem fólk þarf að sanna fátækt sína eða nauð til að fá bætur og þjónustu. Almennur réttur til aðstoðar er ekki fjárhagslega mögulegur nema þeir sem hafa hærri tekjur greiði umtalsvert hærri skatta en tekjulægri hóparnir. Hér á landi hefur norræna velferðarhugmyndafræðin aldrei náð fótfestu en það skýrir almenna andúð á skattahækkunum – jafn vel á þá sem eru með hæstu tekjurnar. Hin svokallaða „norræna velferðarstjórn“ á Íslandi hefur komið á þrepaskiptum tekjuskatti eftir hrun án þess að tryggja á sama tíma að þeir sem greiða mest til samfélagsins sjái ávinning af aukinni skattbyrði. Ríkisstjórnin gróf undan norrænu velferðarkerfi með því hafa barnabætur og vaxtabætur tekjutengdar og sérstaka vaxtaniðurgreiðslan eignatengda. Aðalsmerki norræna velferðarkerfisins eru t.d. óskertar barnabætur.  Barnabætur langflestra Íslendinga eru nú skertar vegna þess að frítekjumarkið er lægra en lágmarkslaun.

Skuldsettir bótaþegar

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar er að lofa úrbótum í barna- og vaxtabótakerfinu til að aðstoða þá sem eru í mestri neyð. Allt bendir til þess að hækka eigi greiðslur til þeirra tekjulágu og barnmörgu með því að auka tekjutengingu barna- og vaxtabóta. Slík aðgerð mun létta undir tímabundið með mörgum heimilum sem nú kljást við greiðsluvanda.  Á sama tíma mun staða þeirra heimila sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu versna vegna skerðinga bóta. Skv. greiningu Seðlabankans er hlutfall skuldsettra heimila í greiðsluvanda í lok árs 2010 á bilinu 18½- 21½% . Hins vegar voru 37½% skuldsettra húseigenda með neikvætt eigið fé í húsnæði. Allar líkur eru á að mun fleiri heimili séu í dag að kljást við greiðslu- og skuldavanda en þessar tölur gefa til kynna, þar sem bensínverð hefur hækkað mikið og enn eitt verðbólguskotið ríður yfir. Skv. greiningu Seðlabankans eru flest heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu tekjuhá heimili með öll sín fasteignalán í krónum.

Tökum á vanda allra

Mun erfiðara er fyrir heimili í skuldavanda að komast út úr vandanum en fyrir þau heimili sem eru í greiðsluvanda, þar sem of mikil skuldsetning getur torveldað sölu eignarinnar. Þeir sem eru í greiðsluvanda geta hins vegar selt eignina og farið í ódýrara húsnæði. Framboð á ódýru húsnæði er af skornum skammti, þar sem enginn áhugi er á að fjölga búsetuvalmöguleikum þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða. Ef búsetuvalmöguleikum verður ekki fjölgað eru líkur á að viðvarandi greiðsluvandi muni ýta undir landflótta ungs fólks með börn á meðan að skuldsetta hátekjufólkið býr við skuldafangelsi. Almenn 20% leiðrétting lána mun ekki koma öllum út úr greiðslu- og skuldavanda. Fjölga verður búsetumöguleikum, afnema tekjutengingar barna- og vaxtabóta og innleiða lyklafrumvarpið. Rétturinn til að skila inn lyklunum dregur úr líkum á því að fólk gefist upp á að greiða af lánum sínum og fari í langvinnt gjaldþrot. Við komumst ekki út úr fjármálakreppunni nema taka á vanda allra hópa með fljótvirkum aðgerðum.

 

 

Comments are closed.