Lilja Mósesdóttir

Höfnum ófriði og náum sátt um skuldaleiðréttingu

Við stöndum nú sem þjóð á krossgötum og getum valið milli þess að fara ófriðarleiðina eða sáttaleiðina í gegnum skuldakreppuna. Fram til þessa hefur hin svokallaða norræna vinstristjórn hvatt fólk og fyrirtæki til að fara dómstólaleiðina teljið það að fjármálastofnanir og löggjafinn hafi brotið á rétti þeirra. Þessi afstaða hefur ekki verið í neinu samræmi við nafnið sem forystumenn stjórnarflokkanna gáfu ríkisstjórninni þegar þau lýstu því yfir að hún væri norræn velferðarstjórn.

Samningar um ágreiningsmál og almennar aðgerðir sem gagnast öllum sem orðið hafa fyrir samskonar tjóni einkenna norræna módelið. Í frjálshyggju módelinu er hins vegar lögð áhersla á einstaklingsbundna úrskurði dómskerfisins í ágreiningsmálum og á aðstoð til þeirra sem eru í mestri neyð. Ég óttast fjöldamálsóknir í kjölfar dóms Hæstaréttar um að vaxtaútreikningar á ólöglegum gengistryggðum lánum megi ekki vera afturvirkir. Hætta er á að annað hvert skuldsett heimili og fyrirtæki muni á næstunni standa í málaferlum við banka og ríkið. Málaferlum vegna stökkbreyttra lána, laga sem ganga á rétt lántakenda og dóma Hæstaréttar til að fá niðurstöðu um fordæmisgildi þeirra. Við siglum hraðbyri inn í tímabil ófriðar, þar sem barist er að óþörfu fyrir dómstólum.

Sundrað samfélag

Frá því ég kom inn á þing hef ég varað við því að beina skuldsettum heimilum í dómsstóla til að ná fram réttlátri skuldaleiðréttingu. Dómsstólaleið sem lausn á skuldavanda heimilanna er tímafrek og kostnaðarsöm fyrir bæði einstaklinga og samfélagið sem ekki kemst upp úr kreppuhjólförunum. Auk þess elur dómsstólaleiðin á sundrungu í samfélaginu og er ekki í samræmi við norræna sáttamódelið. Eitt af einkennum norræna módelsins er að samið er um ágreining og leikur ríkisvaldið mikilvægt hlutverk sem sáttasemari milli ólíkra hagsmunaaðila.

Hin svokallaða norræna vinstristjórn hér á landi hefur þess í stað kosið að draga taum fjármagnseigenda í ágreiningsmálum gagnvart lántakendum og saka skuldsett heimili um að vilja hirða lífeyri af gömlu fólki. Það ríkir því mikil gremja meðal skuldsettra heimila en 40% þeirra eru tæknilega gjaldþrota. Þetta hlutfall var ekki nema 20% fyrir hrun. Samkvæmt tölum frá Creditinfo eru nú ríflega 26 þúsund, átján ára og eldri, í alvarlegum vanskilum við fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki og hafa aldrei verið fleiri. Margt skuldsett fólk hefur gefist upp á óréttlætinu og flutt af landi brott. Skuldaleiðrétting er forsenda þess að ungt fólk hafi áhuga á að festa hér rætur og kaupa sér húsnæði. Í dag treystir jafnvel vellaunað ungt fólk sér ekki til að festa kaup á fasteign eftir að hafa upplifað hversu illa verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili eftir hrun. Fasteignamarkaðurinn er því enn botnfrosinn og aðþrengd heimili eiga því fáa aðra möguleika en að láta fjármálastofnanir hirða af sér húsnæðið á undirverði eða að fara í endalausar deildur við kröfuhafa um lagaflækjur.

Sátt í samfélaginu

Nú verða stjórnmálamenn að brúa hyldýpið sem myndast hefur milli þeirra sem tóku verðtryggð lán og hinna sem tóku ólögleg gengistryggð lán og náð hafa fram leiðréttingu í gegnum dómskerfið. Ríkisstjórn sem afneitar skuldavandanum og elur á fordómum okkar gagnvart skuldsettu fólki er ekki vandanum vaxin og á að víkja.  Samstaða mun ekki nást í samfélaginu nema stjórnvöld hætti að kynda undir ágreiningi og leiti sátta með almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar. Almenn leiðrétting er forsenda þess að margir lántakendur geti ráðið við sveiflur í greiðslubyrði í norrænu fasteignakerfi með föstum vöxtum til ákveðins tíma. Ýmsar leiðir eru mögulegar til að ná fram leiðréttingu lána eins og peningamillifærsluleiðin (Steven Keen) eða með því að færa kostnaðinn í óverðtryggðan sjóð. Sjóðurinn yrði smám saman greiddur niður með skatti á hagnað fjármálafyrirtækja og auðlegðarskatti á þá sem fengu eigur sínar að fullu tryggðar eftir hrun.

 

Hugmyndin um peningamillifærsluleiðina gengur út á að Seðlabankinn gefur út skuldabréf fyrir kostnaðinum af skuldaleiðréttingunni, þ.e. 200 milljarða og lánar eignarhaldsfélagi sínu sem greiðir skuldsettum heimilum upphæðina. Heimilin eru síðan skylduð til þess að fara með greiðsluna í bankann og borga niður höfuðstól lána sinna. Bankarnir yrðu síðan að leggja 200 milljarða inngreiðslu heimilanna inn á reikning hjá Seðlabankanum. Efnahagsreikningur Seðlabankans væri þá kominn í jafnvægi, þ.e. með eign upp á 200 milljarða hjá eignarhaldsfélaginu og skuld við bankanna upp á 200 milljarðar. Engin verðbólga verður af völdum 200 milljarða peningamillifærslu, þar sem peningarnir fara í hring og enda hjá Seðlabankanum.

 

Leiðrétting ávinningur allra

Skuldaleiðrétting mun glæða fasteignamarkaðinn lífi og gera mörgum heimilum kleift að standa í skilum. Notum dóm Hæstaréttar til að koma á réttlæti og samstöðu meðal þjóðarinnar. Það eru til réttlatar leiðir til að leiðrétta skuldir heimilanna bara ef viljinn er fyrir hendi.