Lilja Mósesdóttir

Falið eignarhald er á okkar kostnað.

Margt bendir til þess að hrægammasjóðir eigi nú þegar stóran hluta fjármálakerfisins á Íslandi í gegnum þrotabú gömlu bankanna og atvinnulífsins með kaupum á kröfum, hlutabréfum og skuldabréfum. Raunverulegir eigendur hrægammasjóða reyna að fela slóð sína með því að stofna eignarhaldsfélag sem á í eignarhaldsfélagi með aðsetur í skattaskjóli. Falið eignarhald fyrirtækja verður að afnema með því að skylda fyrirtæki til að gefa upp í t.d. ársreikningi sínum hverjir raunverulegur eigendur eru, þ.e. einstaklingar.  Rökin fyrir gagnsæju eignarhaldi fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð eru eftirfarandi.

1. Minni samfélagsáhætta.

Takmörkuð ábyrgð þýðir að eigendur bera ekki ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækis. Kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrot falla því á aðra í samfélaginu, þ.e. viðskiptavini og skattgreiðendur.  Samfélagið á því rétt á að vita hverjir raunverulegir eigendur félagsins eru til að geta metið hvaða áhættu þeir taka með viðskiptum við viðkomandi fyrirtæki.

2. Styrkari samkeppni

Falið eignarhald fyrirtækja gerir Samkeppniseftirlitinu erfitt fyrir að tryggja að samkeppnislögum sé framfylgt.

Krafan um gagnsætt eignarhald gerir aðilum á markaði kleift að forðast að eiga viðskipti við einstaklinga sem stundað hafa svokallað kennitöluflakk til þess m.a. að komast hjá því að greiða viðskiptaskuldir sínir.

3. Hægt að kortleggja krosseignatengsl

Ef upplýsingar liggja fyrir um alla eigendur fyrirtækja geta lánastofnanir greint krosseignatengsl og þannig metið með mun betri hætti, hver raunveruleg áhætta af lánveitingu til viðkomandi eiganda er.

4. Erfiðara að stunda skattsvik

Vogunarsjóðir eru orðnir umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi. Eitt af því sem einkennir starfsemi þeirra er óljóst eignarhald, þar sem sjóður á sjóð og svo koll af kolli. Ógagnsætt eignarhald fyrirtækja gerir fjárfestum kleift að komast undan skattgreiðslum, þar sem skattayfirvöld geta ekki rakið slóð t.d. arðgreiðslna til þess sem naut góðs af henni. Með gagnsæju eignarhaldi er verið að tryggja betri skattheimtu.

5. Dregur úr peningaþvætti og ávinningi af skattaskjólum

Ef skilgreining laga um peningaþvætti er ekki notuð til að tryggja að fyrirtæki upplýsi um raunverulega eigendur mun eignarhald ekki aðeins vera rekjanlegt til eignarhaldsfélaga í skattaskjólum heldur til einstaklinga sem njóta ávinnings af starfseminni.

6. Eykur traust almennings á atvinnulífinu

Forsenda þess að traust aukist í samfélaginu er að upplýsingar um eignarhald sé aðgengilegt öllum rafrænt og að gjaldtaka sé ekki notuð til að takmarka aðganginn.

7. Eykur skilvirkni markaða

Aukið gagnsæi leiðir til upplýstari ákvarðana kaupenda og seljanda á mörkuðum og tryggir því betur en annars væri að lögmál markaðarins leiði til hámarks framleiðslu og skilvirkustu nýtingu framleiðsluþátta í hagkerfinu.

Comments are closed.