Lilja Mósesdóttir

Björgum heimilunum

Hagvöxtur eftir hrun hefur að mestu leyti byggst á auknum sjávarafla og einkaneyslu þeirra sem skattgreiðendur björguðu með fullri innlánstryggingu og verðtryggingin verndaði gegn eignarýrnun eftir hrun. Á sama tíma hafa skuldsett heimili neyðst til að ganga á séreignarsparnað sinn og taka rándýr yfirdráttarlán til að standa í skilum á lánum sem enn á ný vaxa með ógnarhraða vegna nýs verðbólguskots. Nú er svo komið að 26 þús. einstasklingar eru í alvarlegum vanskilum við fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki og hafa aldrei verið fleiri. Ljóst er að alvarleg skuldastaða margra heimila mun verða ein helsta hindrunin á leið okkar út úr kreppunni. Sértæk skuldaúrræði og dómsúrskurðir auka á misskiptinguna og reiðina í samfélaginu. Samstaða mun ekki nást  nema stjórnarflokkarnir hætti að kynda undir ágreiningi og leiti sátta með almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar.

 

Sértæk leiðrétting

 

Enn á ný er ætlunin að bregðast við skuldavandanum með því að taka sérstaklega út einn hóp lántakenda. Nú á að búa til enn eitt skuldaúrræðið fyrir þá sem tóku sitt fyrsta lán eftir 2004. Skuldaúrræði hinnar „norrænu velferðarstjórnar“ eru í anda frjálshyggjunnar, þ.e. einstaklingsbundnar lausnir í gegnum dómskerfið og skuldaaflausn hjá þeim sem eru í mestri neyð. Fordæmisgildi dóma er oftast takmarkað og þeir auka misskiptinguna milli þeirra sem ekki voru með nákvæmlega eins lán en tóku á sig sama forsendubrestinn.  Von er á mörg þúsund málaferlum vegna mögulega ólöglegra  lána. Málaferli sem núþegar hafa dregið endurreisnina á langinn og kostað fólk mikla fjármuni og fyrirhöfn. Einstaklingar hafa verið látnir sækja rétt sinn gagnvart fjármálafyrirtækjum en ekki öfugt- þvert á loforðið um skjaldborg heimilanna. Mikil og vaxandi reiði er í samfélaginu með  óréttlætið og misskiptinguna sem sértæk skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar og þröng túlkun á dómum Hæstaréttar hafa alið af sér.

 

Almenn leiðrétting

 

Í Ástralíu og Bretlandi hefur verið gripið til peningamillifærsluleiðarinnar til bjargar bönkum.  Ég hef áður rætt um hana og Ólafur Margeirsson hefur aðlagað hana að Íslandi. Peningamillifærsluleiðin felur í sér að Seðlabankinn gefur út skuldabréf fyrir kostnaðinum af skuldaleiðréttingunni, þ.e. 200 milljarða og lánar eignarhaldsfélagi sínu sem greiðir skuldsettum heimilum upphæðina. Slík skuldabréf eru gefin út þegar fjármagna þarf halla á ríkissjóði og telst því ekki vera „töfrabragð“. Heimilin eru síðan skylduð til þess að fara með greiðsluna frá eignarhaldsfélaginu í bankann og borga niður höfuðstól lána sinna. Bankarnir yrðu síðan að leggja 200 milljarða inngreiðslu heimilanna inn á reikning hjá Seðlabankanum. Engin verðbólga verður af völdum 200 milljarða millifærslunnar, þar sem peningarnir enda hjá Seðlabankanum. Kostnaður af þessari leið fellur á banka, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð sem fá lægri vaxtatekjur af eignum sínum. Þess ber að geta að ekki er hægt að fella niður allar skuldir heimilanna, þar sem vaxtatekjur fjármálastofna yrði þá svo litlar að þeir yrðu gjaldþrota.

 

Greinin birtist í DV þann 29. febrúar 2012

 

Comments are closed.