Lilja Mósesdóttir

Áhættuminna lífeyriskerfi

Samkvæmt skýrslu úttektarnefndar á lífeyrissjóðunum töpuðust 480 milljarðar króna við bankahrunið og er tapið meira en við mátti búast.  Margir bera ábyrgð á tapi lífeyrisjóðanna. Starfsfólk bankanna gáfu stjórnum sjóðanna í mörgum tilfellum upp rangar upplýsingar um eiginfjárstöðu bankanna og tengsl þeirra við fyrirtæki sem þeir ráðlögðu stjórnum sjóðanna að fjárfesta í. Stjórnir sjóðanna fóru oft á svig við fjárfestingastefnu sjóðanna og verklagsreglur við ákvarðanatöku um fjárfestingar.  Eftirlitsaðilar mátu ekki gæði fjárfestinga sjóðanna og Alþingi breytti lögum um sjóðina til að þjóna sérhagsmunum í atvinnulífinu. Afleiðingin blasir nú við. Iðgjaldagreiðslur launafólks síðast liðin 12 ár hafa tapast og lífeyrir þeirra sem byggt hafa upp sjóðina frá grunni mun að óbreyttu ekki duga til framfærslu. Kostnaður almennings af því að viðhalda núverandi lífeyriskerfi felst ekki aðeins í 480 milljarða tapi. Tapið mun hækka þegar búið er að leiðrétta virði útblásinna eigna lífeyrissjóðanna og Íbúðalánasjóðs sem engin innistæða er fyrir. Tap sjóðanna varpar ljósi á ókosti þess að byggja upp lífeyriskerfi, þar sem lífeyrissjóðir leika aðalhlutverkið og sjá um samtrygginguna ásamt ávöxtun viðbótarlífeyris á markaðsforsendum í óstöðugu hagkerfi. Nauðsynlegt er að byggja upp nýtt lífeyriskerfi, þar sem meira jafnvægi ríkir milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóða.

Tapaðar eignir

Eftir hrunið sem hófst í reynd haustið 2007 hefur verið reynt að draga úr tapi lífeyrissjóðanna með því að láta verðtryggðu kynslóðina taka alfarið á sig verðbólguskotið í stað þess að deila því á milli lánveitenda og lántakenda eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir.  Gífurleg eignatilfærsla hefur því átt sér stað frá skuldsettum heimilum í gegnum banka og Íbúðalánasjóð til lífeyrissjóðanna og annarra fjármagnseigenda. Fyrir hrun áttu um 20% heimila ekki eignir fyrir skuldum en þetta hlutfall er nú komið í 40% og fer hækkandi. Auk þess er nú ætlunin að hækka iðgjaldagreiðslur í sjóðina úr 12% af tekjum fyrir skatt í 15%. Núþegar hafa um 33 milljarðar fallið á skattgreiðendur vegna útlánataps Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður á enn langt í land hvað varðar að afskrifa tapaðar eignir (útlán). Gert er ráð fyrir að Alþingi þurfi á þessu ári að leggja Íbúðalánasjóði til a.m.k. 33 milljarða til viðbótar til að mæta útlánatöpum og eiga fyrir greiðslum til lífeyrissjóðanna sem í raun fjármagna fasteignalánin.

Leiðrétting óhjákvæmileg

Skuldavandi heimilanna má fyrst og fremst rekja til ákvarðana bankastarfsmanna, stjórna lífeyrissjóða og stjórnmálamanna en ekki til ákvarðana einstakra heimila.  Réttlætingin fyrir almennri leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána er eignabóla (verk banka og lífeyrissjóða) og verðtrygging (verk stjórnmálamanna). Þegar bankarnir hófu að lána ólögleg gengistryggð lán jókst gífurlega framboð lánsfjármagns til fasteignakaupa. Eignabóla myndaðist á fasteignamarkaði sem varð til þess að þeir sem keyptu eignir eftir 2004 neyddust til að greiða alltof hátt verð. Verðtrygging fasteignalána eftir hrun magnaði upp vandann, þar sem hún tryggði að virði skulda hækkaði í kjölfar verðbólguskots á sama tíma og verð fasteigna lækkaði. Óbreytt lífeyrisskerfi mun magna upp skuldavanda verðtryggðu kynslóðarinnar og hrekja margt ungt fólk úr landi. Skuldakreppan mun vara í ártugi ef samstaða næst ekki um almenna skuldaleiðréttingu.

Drögum úr áhættu

Í nágrannalöndunum er meira jafnvægi milli lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfisins, þrátt fyrir meiri efnahagslegan stöðugleika. Í umræðunni um framtíð lífeyrissjóðanna hér á landi gleymist oftast að geta þess að sjóðir (sjóðsmyndunarkerfi) fela í sér töluverða áhættu og aðeins er einblínt á áhættuna í almannatryggingakerfinu (gegnumstreymiskerfinu). Í sjóðsmyndunarkerfinu er hætta á að eignir sjóðanna rýrni og tapist eins og gerðist í bankahruninu. Auk þess byggir sjóðsmyndunarkerfið á því að fólk öðlist réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur. Lífeyrissjóðir viðhalda því launamuninum á vinnumarkaði. Áhætta gegnumstreymiskerfisins felst fyrst og fremst í aldurssamsetningu þjóðarinnar og þróun raunlauna. Ef raunlaun hækka ekki í samræmi við fjölgun lífeyrisþega á sama tíma og fjöldi skattgreiðenda stendur í stað, þá þarf að hækka skatta til að fjármagna kerfið. Tekjujöfnun í gegnum lágmarkslífeyri er mun auðveldara að ná fram í gegnum gegnumstreymiskerfið. Hér á landi hefur almannatryggingakerfið verið talað niður af þeim sem hafa beina hagsmuni af því að nýta peninga almennings í fjárfestingar.

Blandað kerfi

Blandað kerfi sjóðsmyndunar og gegnumstreymis hentar okkur mun betur, þar sem það er áhættuminna og gerir okkur kleift að losna við verðtrygginguna og auka jöfnuð. Mikilvægt er að auka vægi almannatryggingakerfisins sem fyrst og nota það til að tryggja öllum lágmarkslífeyri. Lífeyrissjóðir eiga ekki að sjá um samtrygginguna – aðeins um ávöxtun viðbótarlífeyris. Samtryggingin sem innbyggð er í starfsreglur flestra lífeyrissjóða hefur verið notuð til að réttlæta að skuldsett heimili séu blóðmjólkuð til að bæta tap sjóðanna. Fjármagna á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga sem duga til framfærslu með skatti á inngreiðslur í lífeyrissjóðina. Skatturinn mun minnka umfang sjóðanna sem voru fyrir hrun orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf og tóku því mikla áhættu í fjárfestingum sínum.

Comments are closed.