Lilja Mósesdóttir

Þjóðnýting einkaskulda – almenningur blóðmjólkaður

Kröfuhafar gömlu bankanna og útrásarvíkinganna leita enn leiða til að koma kröfum sínum yfir á skattgreiðendur í stað þess að láta gömlu bankana og útrásarvíkingana borga. Forysta stjórnarflokkanna hefur ýtt undir þessa viðleitni kröfuhafanna með ítrekuðum nauðsamningum um „Icesave skuldbindinguna“, andstöðu við almennar skuldaleiðréttingar sem hefðu rýrt eignir kröfuhafa og stuðning við gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að aflandskrónur og aðrar eignir kröfuhafa verði afskrifaðar. Á bak við aflandskrónurnar og eignir kröfuhafa gömlu bankanna voru einkaskuldir fyrirtækja sem fóru í þrot. Þjóðarbúið hefur því ekki efni á að greiða út þessar aflandskrónur og eignir kröfuhafa. Ríkisstjórnin skilur ekki vandann og leyfir aflandskrónueigendum að kaupa ríkisskuldabréf fyrirverðlitlar krónur eins og þær hefðu fullt verðgildi. Þetta heitir að þjóðnýta tapaðar einkaskuldir. Skerða verður lífskjör almennings verulega í landinu ef þessum froðueignum verður ekki þrýst út úr hagkerfinu með því að rýra virði þeirra með háum útstreymisskatti eða með því að taka upp Nýkrónu á mismunandi skiptigengi til að rýrar verðgildi þeirra.

Höft til verndar kröfuhöfum

Sífellt fleiri sérfræðingar taka nú undir tillögu mína um skatt á útstreymi fjármagns sem ég lagði m.a. til í grein í Fréttablaðinu í lok október 2008. Tillögu minni var slátrað af fólki sem veit ekkert um fjármálakreppur og skilur ekki nauðsyn þess að skrifa niður tapaðar eignir sem notaðar voru til að fjármagna fjárfestingar og neyslu fyrirtækja og einstaklinga sem nú eru gjaldþrota. Í stað t.d. 80% skatts á útstreymi fjármagns voru innleidd gjaldeyrishöft sem vernda kröfuhafa gegn eignarýrnun og tryggja þeim hæstu ávöxtun sem völ er á í Evrópu. AGS ráðlagði stjórnvöldum að styggja ekki eigendur þessara froðueigna. Aflandskrónueigendum var því boðið að umbreyta froðueignum sínum í ríkisskuldabréf án afskrifta og með hárri ávöxtun. Ávöxtun sem sótt er í vasa skattgreiðenda og skuldsettra heimila og fyrirtækja á Íslandi. Eftir hrun hefur þjóðin ekki átt gjaldeyri til að kaupa krónueignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa.

Útflutningstekjurnar hafa farið í að greiða fyrir innflutning og vexti og afborganir af erlendum skuldum. Útstreymi vaxtagreiðslna af froðueignum sem eru á leið út úr hagkerfinu hefur veikt gengi krónunnar og gert endurfjármögnun erlendra lána erfiðari og dýrari en ella. Fljótlega þarf t.d. Nýi Landsbankinn að endurfjármagna lán að upphæð um 320 milljarða. Nauðsynlegt er að fá nýtt erlent lán til að koma í veg fyrir að þessi upphæð bætist ekki við um 700 milljarða eignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa gömlu bankanna sem sitja fastar á bak við höftin og bíða þess að fara út. Útstreymi sem setur mikinn þrýsting á krónuna til lækkunar. Höftin virka eins og vatnsaflsvirkjun sem lokar á útstreymið og á bak við vegg virkjunarinnar safnast upp stöðugt hærra stöðulón peninga. Stöðulón sem núna er um 1.000 milljarðar en fer niður í um 700 milljarðar um leið og búið er að tryggja endurfjármögnun Landsbankans.

Lífskjörin í vasa kröfuhafa

Sú leið sem stjórnarflokkarnir hafa valið til að tryggja eignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa er að halda kaupmætti í landinu niðri og langt undir því sem gerist hjá nágrönnum okkar. Lítill kaupmáttur almennings á Íslandi dregur úr innflutningi vöru og þjónustu, þannig að afgangur myndast á viðskiptum við útlönd. Afgangurinn er notaður til að fjármagna hægfara útstreymi froðueignanna. Miklar skuldir og vaxtagreiðslur íslenska þjóðarbúsins gera þjóðinni sífellt erfðara fyrir að fjármagna hægfara útstreymi froðueigna og því eru nú uppi raddir um að veikja þurfi gengi krónunnar enn meira til að fjármagna útstreymið. Enn á ný er m.ö.o. uppi krafa um að styrkja skjaldborgina um fjármagnseigendur á kostnað lífskjaranna í landinu. Stjórnarflokkarnir virðast ekki sjá neina aðra leið út úr vandanum. Ef hin svokallaða norræna velferðarstjórn ætlar að fara lífskjaraskerðingarleiðina, þá mun mikill fjöldi landsmanna sjá hag sýnum betur borgið með því að selja krónueigendum eignir sínar á bóluverði og flytja þangað þar sem lífskjör eru viðunandi.

Nýkróna

Skattlagningu á útstreymi fjármagns hefur verið hafnað á þeirri forsendu að skatturinn gangi á eignarrétt kröfuhafa og gegn ákvæði EES samningsins um frjálst flæði fjármagns. Upptaka Nýkrónu með mismunandi skiptigengi er leið framhjá þessum vandkvæðum. Launum fólks í landinu yrði breytt í Nýkrónu þannig að upphæð þeirra yrði óbreytt. Froðueignir á leið út úr landi yrði hins vegar skipt yfir í Nýkrónu þannig að 10 milljónir í gömlum krónum yrðu t.d. 2 milljónir í Nýkrónum. Upptaka Nýkrónu myndi þannig laga ytra ójafnvægi hagkerfsins sem birtist í því að þjóðin hefur ekki efni á að kaupa krónueignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa nema fella gengi krónunnar enn meira og skerða verulega lífskjör almennings með hærra vöruverði og dýpkandi skuldakreppu heimilanna.

Jafnframt væri nauðsynlegt að nota upptöku Nýkrónunnar til að laga innra ójafnvægi hagkerfisins sem felst í því að sumir eiga alltof miklar eignir (fjármagnseigendur og lífeyrissjóðir) og aðrir eru of skuldsettir. Við upptöku Nýkrónunnar þyrfti því að skrifa húsnæðisskuldir þannig að 10 milljón kr. lán færi yfir á 8 milljónum kr. og lækka eignir fjármagnseigenda til samræmis. Upptaka Nýkrónu er ekki töfrabragð heldur nauðsynleg varnaraðgerð til að koma í veg fyrir aukna fátækt og stórfelldan landflótta á næstu árum.