Lilja Mósesdóttir

Af rangfærslum Stefáns Ólafssonar

Þegar prófessor við HÍ bloggar ætlast maður til að málflutningurinn byggi á staðreyndum, þekkingu og haldbærum rökum jafnvel þó um persónulegar skoðanir sé að ræða.  Ég opnaði blogg Stefáns Ólafssonar  með þessar væntingar en varð fyrir vonbrigðum um leið og ég las fyrstu málsgreinina þar sem hún er einfaldlega röng!

Stefán fullyrðir að ég hafi snúið baki við SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar þrátt fyrir að skýrt komi fram í yfirlýsingu minni sem birtist í fjölmiðlum síðastliðinn fimmtudag að ég muni vera áfram félagsmaður í SAMSTÖÐU og formaður fram að næsta landsfundi. Á landsfundinum fá félagsmenn í SAMSTÖÐU  í fyrsta sinn tækifæri til að kjósa sér formann en ég hef gengt því embætti til bráðabirgða og mun halda því áfram þar til sá sem hlýtur kosningu til formanns tekur við því. Formennska í nýjum stjórnmálaflokki er afar tímafrekt starf. Störf þingmanns sem er eini þingmaður ákveðins stjórnmála eru ærin, ekki síst þegar kosningar eru á næsta leiti. Þess vegna tek ég fram að ég muni einbeita mér að þingstörfum eftir að hafa látið af formennsku í SAMSTÖÐU.

Stefán fullyrðir í bloggi sínu að í SAMSTÖÐU ríki sundurlyndi án þess að tilgreina dæmi um slíkt. Það getur seint talist merki um sundurlyndi að segjast ekki gefa kost á sér í trúnaðarstarf en halda áfram að vera félagsmaður. Ég skora því á Stefán að útskýra fyrir okkur hvað hann eigi við og hafa jafnframt í huga að félagafrelsi ríkir í landinu þannig að fólk getur á hvaða forsendum sem er gengið til liðs við flokk og sagt sig úr honum. Þetta á við um alla stjórnmálaflokkana.

Steininn tók úr í bloggi Stefáns þegar hann fullyrðir án rökstuðnings að ég hafi haft AGS fyrir rangri sök. Hér tekur Stefán að sér að endurvarpa skoðun hins málglaða þingmanns, Björns Vals Gíslasonar, um að ég hafi haft rangt fyrir mér þegar ég sagði efnahagsáætlun AGS og ríkisstjórnarinnar vera kreppudýpkandi.

Ég hef vissulega gagnrýnt efnahagsstefnu AGS og bent á að hávaxtastefnan og of hraður niðurskurður væru kreppudýpkandi. Afleiðingar hennar eru m.a. minni hagvöxtur frá hruni en AGS reiknaði með í fyrstu áætlun sinni sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggði á. Á árinu 2010 gerði AGS t.d. ráð fyrir því að hagvöxtur yrði enginn en kreppudýpkandi efnahagsstefna AGS og ríkisstjórnarinnar færði hann niður í -4%. Heimilin í landinu björguðu þjóðinni frá enn frekari samdrætti efnahagslífsins með því að taka út séreignarsparnaðinn sinn, krefjast almennra skuldaúrræða sem svarað var með greiðslu sértækrar vaxtabóta og málaferlum vegna gengislána.

Efnahagsáætlun AGS fylgdi skilyrði um að ríkisstjórnin ynni að lausn Icesave deilunnar. Það gerði hin svokallaða velferðarstjórn og fyrsti Icesave-samningurinn leit dagsins ljós í júní 2009. Ég var frá upphafi andsnúin því að samþykkja þennan samning því hann hefði gert skuldir Íslands ósjálfbærar. Steingrímur J. lagði hins vegar áherslu á að Ísland þyrfti að leita til Parísarklúbbsins ef Icesave-samningurinn yrði ekki samþykktur. Andstaða mín og annarra innan þings og utan bjargaði skattgreiðendum hins vegar frá Parísarklúbbnum.

Ég vil ljúka þessari umfjöllun um blogg Stefáns með því að hvetja hann til að vanda málflutning sinn. Starfsfólk Háskóla Íslands er vant að virðingu sinni eins og nýleg höfnun á beiðni um að ég fengi að stýra málstofu við stofnunina ber með sér. Beiðninni var hafnað með þeim rökum að ég væri of pólítískur málstofustjóri. Ég geri því þá kröfu til einstaklinga sem starfa við HÍ að gæta þess að vera ekki of pólitískir í skrifum sínum um fagsvið mitt og beita staðreyndum, þekkingu og haldbærum rökum.

Comments are closed.