Lilja Mósesdóttir

Afskriftir í nafni mannúðar

Lausn ráðamanna í Evrópu á bankakreppunni er svokallaður agi í ríkisútgjöldum og skuldsetning ríkissjóða til bjargar bönkunum. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, kallaði efnahagsstefnu ESB  sjálfsmorðsstefnuna vegna þess að hún dýpkar kreppuna og gerir aðstæður almennings óbærilegar. Neyðaróp grísku þjóðarinnar, sem getur ekki lengur brauðfætt öll börn sín eða tryggt sjúklingum nauðsynleg lyf, hefur ekki enn megnað að stoppa  Evrópska sjálfsmorðsferlið.

Vanda evrusvæðisins í dag má rekja til rangrar efnahagsstefnu. Stefnan hefur verið keyrð í gegn af Þjóðverjum með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ekki hafa áhuga á að taka á rót vandans heldur aðeins afleiðingunum.  Rót vandans er halli á viðskiptajöfnuði evrulandanna.  Vörur og fjármagn ríku evrulandanna hafa frá upptöku evrunnar streymt inn í fátækari  evrulöndin og búið til eignabólur eins og t.d. á Spáni. Eignabólur springa vegna þess að lán eru ekki notuð til að keyra upp hagvöxt heldur til að fjármagna hækkun eignaverðs. Það þarf hagvöxt til að eiga fyrir vaxtagreiðslum og afborgunum. Halla á viðskiptajöfnuði er aðeins hægt að minnka með aukinn útflutningsframleiðslu, minni innflutningi og minni skuldabyrði eða afskriftum skulda.

Í stað þess að gera fátækum evrulöndum í vanda kleift að auka útflutning og afskrifa ósjálfbærar skuldir hafa Þjóðverjar neytt þessi lönd til að auka skuldsetningu ríksjóðs og skera niður ríkisútgjöld til að endurfjármagna töpuð lán banka.  Töpuð útlán bankakerfisins eru þannig gerð að skuld skattgreiðenda. Niðurskurður og aukin skuldsetning ríkissjóðs dregur úr getu atvinnulífsins til að fjárfesta og ráða fólk. Hagvöxtur minnkar og geta fátæku evrulandanna til að greiða af lánum versnar því stöðugt.  Að lokum þorir enginn að lána skuldsettum evruþjóðum og fjármagnsflótti hefst úr landinu. Þá er Evrópski Seðlabankinn notaður til að lána bönkum í vanda. Ábyrgðin á endurgreiðslu lánsins er lögð á viðkomandi ríkissjóð eða skattgreiðendur, þar sem Evrópski Seðlabankinn má ekki lána ríkissjóðum.

Evran hefur gert fólki að flytja allar eigur sínar frá fátækari evrulöndum og skilja skuldirnar eftir fyrir fátækt fólk að greiða af. Ósjálfbærar skuldir hafa  ekki síður eyðileggjandi áhrif á samfélagið og líf einstaklinga en stríð.  Skuldir sem koma í veg fyrir að þjóðir geti tryggt einstaklingum mannréttindi eins og atvinnu, framfærslu og heilbrigðisþjónustu á að afskrifa í nafni mannúðar.

Skv. Seðlabanka Íslands voru undirliggjandi erlendar skuldir þjóðarbúsins á árinu 2011 um 212% af VLF en ekki nema um 170% af VLF í Grikklandi. Afgangur okkar á viðskiptum við útlönd dugar ekki til að greiða afborganir og vexti af þessari skuldsetningu. Viðskiptahallinn hefur minnkað mikið eftir hrun en er enn neikvæður um 2,5% af VLF, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi fallið um 80% frá 2007. Gengi krónunnar þarf því að falla meira til að standa undir núverandi skuldsetningu við útlönd. M.ö.o. líklegt er að stjórnvöld og valdastéttin muni skerða lífskjör landsmanna til að standa undir núverandi skuldsetningu þjóðarbúsins.  Hætta er á að erlendar skuldir þjóðarbúsins muni vaxa umtalsvert á næstunni ef áform um að breyta aflandskrónum og eignum kröfuhafa gömlu bankanna (snjóhengjan), þ.e. 1.200 milljörðum í annað hvort í ríkisskuldabréf í erlendum myntum eða lán hjá Evrópska Seðlabankanum.  Slík skuldsetning breytir einkaskuld í skuld skattgreiðenda sem er óásættanlegt. Ósjálfbærar skuldir hneppa komandi kynslóðir í óbærilega skuldafjötra. Afskrifa verður stóran hluta snjóhengjunnar ef Ísland á að vera búsetuvalkostur fyrir börnin okkar.