Lilja Mósesdóttir

Skattgreiðendur niðurgreiða lífeyrissjóðina.

Íbúðalánasjóður lánar til almennings á kjörum sem tryggja að lífeyrissjóðirnir fá viðunandi raunávöxtun að þeirra mati. Hlutverk sjóðsins er að tryggja lánsframboð til tekjulágra eintaklinga og þeirra sem búa á jaðarsvæðum. Ávöxtunarkrafa Íbúðalánasjóðs tekur lítið tillit til markaðsaðstæðna í niðursveiflu og almenns forsendubrests eins og ríkir í samfélaginu í dag. Þegar bankar bjóða hagstæðari kjör en lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir til að sætta sig við á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs flýr fólk sjóðinn. Ríkið eykur eigið fjárframlag sitt þegar uppgreiðslur eru meiri en útlán hjá sjóðnum og þegar lántakendur geta ekki lengur staðið undir greiðslu- og skuldabyrðinni vegna forsendubrests. Þannig ver ríkissjóður lífeyrissjóðina gegn skyndilegri uppgreiðslu og útlánatapi Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður er því enn eitt tækið sem ríkissjóður notar til að tryggja viðunandi afkomu lífeyrissjóðanna á kostnað gegnumstreymiskerfisins (almannatryggingakerfisins). Hin stuðningstækin eru verðtrygging og skattur á útgreiðslur en ekki inngreiðslur í sjóðina. Verðtryggingin tryggir sjóðnum örugga ávöxtun í sveiflukenndu hagkerfi sem gerir allar spár um verðbólguþróun háða mikilli óvissu. Óskattaðar inngreiðslur í sjóðina auka umsvif þeirra um 40%. Sjóðirnir fá peninga skattgreiðenda til ávöxtunar án þess að krafa sé gerð um að þeir endurgreiði höfustólinn þegar hann tapast eða rýrnar.

Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hefur meira verið greitt upp af lánum Íbúðalánasjóðs en sjóðnum hefur tekist að lána út. Mismunurinn er um 1,3 milljarðar. Hópur fólks hefur flúið sjóðinn til að nýta sér lægri vexti á óverðtryggðum lánum viðskiptabankanna. Þetta fólk hefur efni á uppgreiðslu- og stimpilgjöldum og getur tekið á sig hærri greiðsubyrði á mánuði, þ.e. tekjuhátt fólk. Uppgreiðslu- og stimpilgjöld geta numið um milljón á 20 milljón króna láni. Ríkið kemur m.ö.o. í veg fyrir að tekjulágt fólk geti tekið lán til fasteignakaupa á lægstu mögulegu kjörum. Uppgreiðsla lána hjá Íbúðalánasjóði ógnar enn á ný rekstrargrundvelli sjóðsins. Ástæðan er sú að Íbúðalánasjóður getur ekki greitt upp skuldabréf sjóðsins sem lífeyrissjóðirnir hafa keypt með ákvæðum sem banna uppgreiðslu.

Íbúðalánasjóður situr auk þess uppi með óseljanlegar fasteignir sem fólk hefur misst eftir að hafa í mörgum tilfellum eytt sparifé sínu og öðrum eignum til að standa í skilum með lán sín. Margir lántakendur hafa fáa aðra búsetuvalkosti en að fjármagna húsnæðiskaup á kjörum sem þeir eiga erfitt með að standa undir. Þeir lenda því í greiðslu- og skuldavanda um leið og breytingar verða í efnahagslífinu eða á einkahögum þeirra. Eftir hrun hefur ríkissjóður þurft að leggja Íbúðalánasjóði 33 milljarða og enn er þörf á auknu ríkisfjárframlagi.

Lausnin á vanda Íbúðalánasjóðs er ekki innganga í ESB eins og Samfylkingin reynir að telja fólki trú um. Einn af ávinningum ESB aðildar er lægra vaxtastig. Íbúðalánasjóður mun ekki geta lækkað vexti vegna banns á uppgreiðslu húsbréfa sjóðsins í eigu m.a. lífeyrissjóðanna. Fólk mun því flýja háa vexti Íbúðalánasjóðs við inngöngum í ESB. Íbúðalánasjóður verður gjaldþrota nema lántakendum verði bannað að greiða upp lán sín hjá sjóðnum. Þá verður ávinningur tekjulágra einstaklinga af ESB aðild afskaplega lítill.

Ríkissjóð á ekki að nota til að niðurgreiða starfsemi lífeyrissjóðanna með verðtryggingu, skatti á útgreiðslur  í stað inngreiðslna og Íbúðalánasjóði. Niðurgreiðslustoðkerfi sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nota skattgreiðslur í gegnumstreymiskerfið til að tryggja lífeyri sem dugar til lágmarksframfæslu. Ef lífeyrissjóðirnir geta ekki starfað á markaðsforsendum eru þeir ekki  skilvirkasta leiðin til að tryggja hag aldraðra í íslensku samfélagi. Því verður að minnka umsvif lífeyrissjóðanna og auka vægi gegnumstreymiskerfisins.