Lilja Mósesdóttir

Sátt um skuldirnar

Það er orðin efnahagsleg og félagsleg nauðsyn að fram fari almenn leiðrétting á fasteignalánum landsmanna. Að öðrum kosti festumst við í skotgröfunum og skuldakreppu eins og þeirri sem Japanir hafa þurft að glíma við í 12 ár. Andstaðan við almenna leiðréttingu lána er blekkingaleikur og tilraun til að láta fjölskyldur með fasteignalán taka á sig tap Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir sýsla með eignir sjóðsfélaganna sem geta tapast og rýrnað, enda um að ræða fjárfestingasjóði sem eiga sífellt erfiðar með að finna arðbæra og trygga fjárfestingakosti. Það er sjóðfélaganna en ekki skuldsettra heimila að taka á sig það tap. Almannatryggingakerfið á að tryggja öllum lífeyri sem dugar til framfærslu. Hlutverk sem almannatryggingakerfinu hefur aldrei verið gert kleift að leika. Þess í stað hefur almannatryggingakerfið verið holað að innan með tekjutengingum og lífeyrissjóðir efldir með því að dæla í þá milljörðum af skattpeningum ríkissjóðs (óskattlagðar iðgjaldgreiðslur). Tap lífeyrissjóðanna hefur orðið til þess að margir þeirra geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum nema með eignatilfærslu frá skuldsettum heimilum til sjóðanna í gegnum verðtrygginguna. Ef við tökum ekki á skuldavandanum og komum á betra jafnvægi  milli virði eigna og skulda, þá mun landflótti ungs fólks verða viðvarandi vandamál. Landflóttinn mun síðan grafa undan lífeyrissjóðunum, þar sem iðgjaldagreiðendum mun fækka.

Misskipting

Frá ársbyrjun 2008 hafa skuldir 69 þúsund heimila með fasteignalán hækkað um 40%. Þau heimili sem ekki hafa ráðið við greiðslu- og skuldabyrðina hafa annað hvort fengið niðurfellingu skulda eða neyðst til að fara í þrot. Höfuðstólshækkun er tilkomin vegna bankahruns og gengishraps krónunnar sem skuldsett heimili gátu ekki séð fyrir þegar stofnað var til skuldanna. Aldrei áður hefur þjóð farið í gegnum fjármálakreppu með verðtryggingu að vopni. Flestar þjóðir hafa búið við fasta nafnvexti (raunvextir + verðbólga) á fasteignalánum og verðbólgunni síðan leyft að éta upp höfuðstól lána í kjölfar bankahruns. Þetta hefur þótt ásættanlegt í ljósi þess að mikil eignatilfærsla á sér yfirleitt stað til eignafólks í fjármálakreppu. Eignafólkið hefur svigrúm til að kaupa eignir á brunaútsölu af þeim sem eiga ekki varasjóði til að mæta áföllum. Á Íslandi finnst „vinstristjórninni“, verkalýðsforystunni, lífeyrissjóðunum og kröfuhöfum réttlætanlegt að 69 þúsund heimili taki á sig 350 milljarða byrði vegna verðbólguskots eftir bankahrun. Á sama tíma  er almennri leiðréttingu fasteignalána hafnað, þar sem 200 milljarða kostnaður muni falla á ríkissjóð eða á 150 þúsund tekjuskattsgreiðendur. Þess í stað er vaxandi misskipting í samfélaginu réttlæt með nauðsyn þess að skuldsett fólk taki ábyrgð á stökkbreytum skuldum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðskerfinu og velferð komandi kynslóða.

Samstaða nauðsynleg

Eitt af því sem einkennt hefur „norrænu vinstristjórnina“ er vangeta hennar til að horfast í augu við fordæmalausan vanda eftir hrun og traust hennar á að vandinn annað hvort leysist af sjálfu sér eða með hefðbundnum aðgerðum. Sértæku úrræðin hafa hneppt samviskusömu fjölskyldurnar í skuldafangelsi og tryggt að kröfuhafar hámarki endurheimtur sínar á eignum sem þeir fengu langt undir skráðu virði þeirra (upphæð lánanna). Það kallast að eignast eignir með afföllum. Afleiðingin er gífurleg eignatilfærsla sem birtist í vaxandi misskiptingu milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda. M.ö.o. loforðið um norrænt velferðarsamfélagsins voru orðin tóm og í staðinn var komið á kröfuhafasamfélagi.  Óánægja þeirra sem sjá og upplifa óréttlætið sem felst í misskiptingunni vex með hverju nýju útspili ríkisstjórnarinnar til að lægja reiðina í samfélaginu. Nýjasta dæmið er greinargerð Hagfræðistofnunar sem notaði rangar upplýsingar um (affalla)svigrúmið og var ekki falið að reikna út hvað það kostar að gera ekki neitt til að leysa skuldavanda heimilanna. Með því að nota rangar upplýsingar um afföllin á lánasöfnunum sem fóru milli nýju og gömlu bankanna komst Hagfræðistofnun að þeirri niðurstöðu að bankarnir væru búnir að fullnýta svigrúmið. Marinó G. Njálsson og Hagsmunasamtök heimilanna fullyrða hins vegar að ekki sé búið að nýta allt svigrúmið og að 53 milljarðar standi enn eftir. Það er því ljóst að ágreiningurinn um hvort og hvernig sé hægt að leysa skuldavanda heimilanna hefur dýpkað í samfélaginu. Í stað málflutnings og aðgerða sem sundra þjóðinni þurfum við að efla samstöðuna og leita leiða sem tryggja réttláta lausn á skuldavanda heimilanna.

Comments are closed.