Lilja Mósesdóttir

Skömmin er þeirra

 Ísland hefur lengi verið meðal ríkustu þjóða heims. Þrátt fyrir það fjölgar sífellt í hópi þeirra sem búa við vanda sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld tala stöðugt um að leysa en gera ekkert til að leysa. Vandi sem felst í því að lágmarkslaun og bætur duga ekki til framfærslu og eignir duga ekki fyrir skuldum. Viðvarandi fátækt og skuldafangelsi einkenna líf sífellt fleiri einstaklinga sem talið er trú um að vandinn sé þeirra en ekki samfélagsins.

Fátækt

Á Íslandi hefur fólk sem ekki hefur haft heilsu og getu til að taka að sér aukastörf búið lengi við fátækt og þurft að leita á náðir hjálparstofnana til að komast af. Hvorki aðilar vinnumarkaðarins né stjórnvöld hafa viljað uppræta fátækt þegar tækifæri hafa skapast til þess, þrátt fyrir fögur fyrirheit í áratugi um aukinn jöfnuð í aðdraganda kjarasamninga og kosninga. Óskrifaður samfélagssáttmáli hefur verið lengi við lýði um að fólk á lágmarkslaunum og bótum almannatrygginga hafi aðeins eina leið út úr fátækt, þ.e. að afla aukatekna. Þeir sem ekki geta reddað sér á þennan hátt upplifa mikla skömm yfir eigin vangetu. Í dag riðar þessi samfélagssáttmáli til falls vegna þess að hagvöxtur vex án þess að sami fjöldi (auka)starfa og áður verði til m.a. vegna tækninýjunga. Það munu því sífellt færri molar (aukastörf) falla til þeirra sem ekki geta lifað á lágmarkslaunum. Vaxandi fátækt verður því ekki útrýmt nema til komi samstillt átak aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að laun dugi fyrir framfærslu. Beita þarf kjarasamningum og skattkerfinu til að ná því marki. Slíkt átak mun auka samstöðuna í samfélaginu sem einkennst hefur af mikilli einstaklinghyggju og viðhorfum sem alið hafa á skömm á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Eignaleysi

Eftir hrun hefur fjölgað gífurlega í hópi þeirra sem ekki hafa forsendur til að leysa vanda sinn á eigin spýtur. Fjöldi fjölskyldna sem tilheyrt hefur millistéttinni býr nú við vanda sem stjórnvöld og eignafólk hefur kallað „óráðsíu“ eða að eignir duga ekki fyrir skuldum. Ástæðan fyrir vandanum er hins vegar að finna í einstæðum forsendubresti sem varð eftir hrun. Meðvituð ákvörðun var tekin um að láta verðbólguskotið af völdum hruns á gengi krónunnar fara beint til hækkunar á höfuðstóli lána í gegnum hina einstæðu verðtryggingu. Hvergi í heiminum hefur orðið jafn mikill forsendubrestur meðal skuldsettra einstaklinga í kjölfar bankahruns en höfuðstóll lána hefur hækkað um 40% frá byrjun árs 2008. Eftir hrun tókst vinstristjórninni“, verkalýðsforystunni, lífeyrissjóðunum og kröfuhöfum að gera skuldavanda heimilanna að skömm. Um 60.000 heimili eða um 40% allra heimila eiga ekki eignir fyrir skuldum og það fjölgar stöðugt í hópnum.

Samstaða

Gífurleg fjölgun hefur því orðið í hópnum sem á að taka á sig skömm vegna þess að gæðum landsins er misskipt. Skömmin hefur sundrað þessum hópi „lánleysingja“. Í stað þess að berjast saman fyrir leiðréttingu á forsendubresti og réttlátara samfélagi hafa alltof margir flúið land eða raunveruleikann til að losna út úr vonleysinu sem fylgir því að eiga ekki fyrir skuldum og nauðsynjum. Það er löngu orðið tímabært að beina skömminni þangað þar sem hún á heima, þ.e. hjá“ vinstristjórninni“, verkalýðsforystunni, lífeyrissjóðunum og körfuhöfum. Stöndum saman gegn skömminni og berjumst fyrir aðgerðum sem tryggja réttlátt samfélag!

 

Comments are closed.