Lilja Mósesdóttir

Þrælslund ríkistjórnarinnar er þjóðinni dýrkeypt

(Greinin sem DV vildi ekki birta)

Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsástandið í heiminum viðurkennir sjóðurinn að efnahagsáætlun eins og sú sem AGS keyrði hér í gegn eftir hrun sé kreppudýpkandi.

Í október 2008 varaði ég eindregið við efnahagsáætlun AGS og vísaði í slæma reynslu annarra þjóða.  Efnahagsáætlun AGS var hins vegar framfylgt af mikilli fylgispekt og afar háir vextir hækkaðir enn frekar og samþykkt að skera niður 200 milljarða halla á 5 árum.

Reynsla annarra þjóða af fjármálakreppum sýndi að hátt vaxtastig í landi þar sem heimili og fyrirtæki berjast við of mikla skuldsetningu eftir hrun hlutabréfa- og fasteignaverðs dregur verulega úr fjárfestingum einkageirans og þar með vexti hagkerfisins. Hjarðhagfræðingar háskólanna og fylgisfólk efnahagsstefnu AGS gerði lítið úr reynslu kreppuþjóða og rökum þeirra sem gagnrýndu efnahagsstefnu AGS. Sultaról almennings var hert með hækkun skatta og niðurskurði ríkisútgjalda í samræmi við efnahagsáætlun AGS.

Samkvæmt skýrslu AGS er aðhaldsöm peninga- og ríkisfjármálastefna, á sama tíma og ekkert gengur að fá fjármálastofnanir til að afskrifa skuldir, kreppudýpkandi. „Norræna velferðarstjórnin“ getur ekki borið fyrir sig þekkingarleysi á kreppufræðum núna þegar hún þarf að að skýra fyrir almenningi hvers vegna hún kom markvisst í veg fyrir að lífskjör yrðu betri en raun ber vitni.

Við vorum nokkur í þingflokki VG sem reyndum að sannfæra aðra stjórnarliða árið 2009 og 2010 um nauðsyn þess að fara hægar í niðurskurðinn til að vinna gegn neikvæðum áhrifum of hás vaxtastigs og skuldakreppu heimila og fyrirtækja.  Þegar ljóst var að barátta okkar yrði árangurslítil gripum við Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason til þess neyðarúrræðis að sitja hjá við afgreiðslu fjárlaga í desember 2010. Viðbrögðin við hjásetu okkar voru ásakanir um að við værum að gera lítið úr fjárlaganefnd og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, bað okkur um að íhuga stöðu okkar í stjórnarliðinu. Eftir þessa uppákomu var okkur þremenningunum ekki lengur vært í stjórnarliðinu.

Þvert á efnahagsáætlun AGS sem „norræna velferðarstjórnin“ innleiddi í blindni, ráðleggur AGS nú kreppulöndum að taka upp lausbeislaða peningamálastefnu. Slík stefna hér á landi myndi krefjast vaxtalækkunar og afnáms verðtryggingar.  Jafnframt leggur AGS áherslu á að tapaðar skuldir í bankakerfinu verði afskrifaðar en „norræna velferðarstjórnin“ kaus frekar að hvetja heimili og fyrirtæki til að fara í langdregin dómsmál til að ná fram rétti sínum til skuldaleiðréttinga. Dómsstólaleiðin hægir ekki aðeins á efnahagsbatanum heldur mismunar fólki eftir því hvar það tók lán og hvort það hafði efni á að standa í skilum eftir hrun.

Kreppudýpkandi efnahagsstefna AGS hér á landi hefur dregið úr efnahagsbatanum sem alltaf fylgir í kjölfar bankahruns. Lífskjör almennings á Íslandi eru því verri  og skuldir hins opinbera hærri en ella hefði orðið. Efnahagsáætlun AGS er á ábyrgð Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna en þessir flokkar hafna afnámi verðtryggingar og almennri skuldaleiðréttingu. Nú er það okkar að hafna í næstu kosningum flokkum sem markvisst hafa skert lífskjör í landinu eftir hrun með rangri efnahagstefnu.

Comments are closed.