Lilja Mósesdóttir

Leiðrétting forsendubrestsins grundvallaratriði

Stöðugt fleirum svíður óréttlætið sem felst í vaxandi misskiptingu milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda á Íslandi. Gífurleg eignatilfærsla átti sér stað strax eftir hrun þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ákvað að tryggja innistæður að fullu og að frysta ekki verðtryggingu lána, þrátt fyrir vitneskju um væntanlegt verðbólguskot. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur haldið áfram á sömu braut og  innleitt aðgerðir sem tryggja að byrðar fjármálakreppunnar leggjast þyngst á millitekjuhópana. Skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á ástæðum þess að heimili og fyrirtækja veigra sér við að fjárfesta kemur í veg fyrir að við komumst endanlega upp úr kreppuhjólförunum og endum í vítahring Japana.

 

Laskaðir efnahagsreikningar

Rót efnahagsvandans er að finna í löskuðum efnahagsreikningum fyrirtækja og heimila en ekki í erfiðleikum útflutningsfyrirtækja eins og svo oft áður. Efnahagsreikingar samanstanda af eignum og skuldum. Í kjölfar bankahruns myndast ójafnvægi þar sem eignir lækka í verði á meðan skuldir hækka vegna verðbólguskots. Verðbólguskotið stafar af gengishruni þegar fjármagn  streymir út úr sökkvandi hagkerfi.

Samdráttur af völdum minnkandi efnahagsreikninga breytist mjög fljótt í langvarandi kreppu ef stjórnvöld grípa ekki strax og nógu lengi til mótvægisaðgerða eins og skuldaleiðréttinga og fjárfestinga í innviðum samfélagsins.  Ein helsta mótvægisaðgerð núverandi ríkisstjórnar var að heimila úttekt á séreignasparnaði til að tryggja eftirspurn í hagkerfinu. Úttektin á séreignasparnaði hefur hins vegar aukið ójafnvægið á efnahagsreikningum heimilanna. Heimilin hafa neyðst að ganga á eignir til að ná endum saman á sama tíma og skuldir hafa hækkað vegna verðtryggingarinnar.

 

Ójafnvægið dregur úr fjárfestingum

Þegar eignabóla springur, þá nota fyrirtæki og almenningur sparnað sinn til að greiða niður skuldir sem minnkar efnahagsreikninga bankanna. Offramboð verður á lánsfé og erfitt er að fá skuldsett fólk og fyrirtæki með slæma reynslu af skuldsetningu til að fjárfesta. Einkageirinn mun ekki hætta að greiða niður lán í stað þess að fjárfesta fyrr en búið er að leiðrétta skuldir og ljóst að fjárfestingar fela ekki í sér forsendubrest.  Slíkt fjárfestingarumhverfi þarf ríkisstjórnin að tryggja en það hefur hún ekki gert.  Íslenskt efnahagslíf mun ekki komast lengi upp úr kreppuhjólförunum nema ójafnvægið verði leiðrétt. Slíka leiðréttingu má gera með upptöku annars gjaldmiðils á mismunandi skiptigengi.

 

Ójafnvægið eykur eignatilfærsluna

Eftir hrun ákváðu stjórnvöld að millitekjuhóparnir greiddu fyrir hrunið og að fjármagnseigendur héldu eignum sínum. Frá hruni hefur síðan fjármagnseigendum verðið tryggð besta ávöxtun sem völ er á. Ávöxtun sem fjármögnuð er með niðurskurði á velferðinni og skattahækkunum. Ef skuldir heimila og fyrirtækja á Íslandi verða ekki leiðréttar aukast líkurnar á því að auðlindir eins og jarðir  – sem allir íbúar á EES svæðinu hafa leyfi til að kaupa hér á landi – fari smám saman í hendur fjársterkra aðila utan landsteinanna.  Mikilvægt er að landið og aðrar auðlindir Íslands verði í eigu landsmanna, enda er það forsenda fullveldis þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin talar um nauðsyn þess að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum en gerir svo ekki það sem til þarf til að tryggja að svo verði. Leiðrétting á t.d. (erlendum) lánum sem Byggðastofnun veitti mörgum bændum verður að fara fram ef sífellt fleiri jarðir eiga ekki að enda í höndum fólks búsett annars staðar á EES svæðinu eða jafnvel utan þess.

 

Misskipting vekur reiði

Lausnir ríkisstjórnarinnar á skuldavandanum hafa verið sértækar eða takmarkast við afskriftir tapaðra skulda hvort sem um tekjuhá eða tekjulága einstaklinga er að ræða. Sértæk skuldaaðlögun hefur verið réttlæt með vísan í eyðslusemi millitekjuhópanna og nauðsyn þess að þeir iðrist gjörða sinna. Mikil óánægja er meðal skuldsetra heimila sem ekki eiga rétt á leiðréttingum en hafa þurft að taka á sig skattahækkanir og ná nú vart endum saman.  Skattahækkanir og sértækar skuldaleiðréttingar hafa magnað upp óánægjuna í samfélaginu og krafan um kosningar strax er hávær. Krafa sem ekki nær eyrum þeirra sem sækjast aðeins eftir völdum. Vaxandi misskipting í samfélaginu heldur hins vegar áfram að grafa undan ríkisstjórn sem lofaði skjaldborg um heimilin og norrænu velferðarkerfi.

 

Comments are closed.