Lilja Mósesdóttir

Lífeyrissjóðir rýrna og tapast

Lífeyrissjóðirnir okkar eru þeir næststærstu innan OECD og nálgast nú 140% af stærð hagkerfisins. Raunávöxtun þeirra á sparifé okkar hefur verið ófullnægjandi og miklir fjármunir töpuðust í bankahruninu. Allt bendir til þess að hagstæðara hefði verið fyrir okkur að hafa umfangsmeira gegnumstreymiskerfi síðast liðin 10 ár. Sífellt stærri lífeyrissjóðir þýðir að erfiðara verður að finna arðbærar fjárfestingar og áhætta kerfisins eykst. Mikið framboð af fjármagni í leit að hárri ávöxtun er fóður fyrir fjármálakreppu. Erfitt er fyrir fjárfesta að keppa við lífeyrissjóði um arðbær fjárfestingartækifæri. Sjóðirnir hafa auk þess ekki áhuga ákaupum á ríkisskuldabréfum nema raunávöxtun þeirra sé hærri en almennt gerist í nágrannalöndunum. Hár vaxtakostnaður ríkissjóðs þýðir að gefa þarf upp hluta af velferðinni fyrir vextina. Sameina verður lífeyrissjóðina og draga úr umfangi þeirra með því að skattleggja inngreiðslur. Blandað kerfi sjóðsmyndunar og gegnumstreymis hentar okkur mun betur, þar sem það er áhættuminna og gerir okkur kleift að losna við verðtrygginguna og auka jöfnuð.

Iðgjöld eða skattur
Í umræðunni um framtíð lífeyrissjóðanna gleymist oftast að geta þess að slíkt sjóðsmyndunarkerfi felur í sér töluverða áhættu. Ávöxtun og verðmæti eigna geta bæði tapast og rýrnað í verði. Óstöðugt efnahagslíf magnar upp áhættuna og því er sjóðsmyndunarkerfið ekki talið henta við slíkar aðstæður. Hér á landi hefur verðtryggingin verið notuð til að draga úr þessum ókosti lífeyrissjóða og markvisst verið dregið úr vægi gegnumstreymiskerfisins (almannatrygginga) sem fjármagnað er í gegnum skattgreiðslur. Áhætta gegnumstreymiskerfisins felst í fjölda framtíðarskattgreiðenda og vilja þeirra til að greiða skatta. Lífeyrissjóðir eru hins vegar byggðir upp á markaðsforsendum. Upphæð iðgjalda sem greidd er inn í sjóðina er háð launum og starfslengd. Lífeyrir sem greiddur er út er síðan háður ávöxtun sjóðanna á iðgjöldum sjóðsfélaganna. Ef réttindi eru ekki skert um leið og ljóst er að eignir sjóðanna hafa rýrnað eða tapast, þá er verið að tryggja lífeyri núverandi lífeyrisþega á kostnað framtíðarlífeyrisþega.

Kostir og ókostir sjóðanna
Einn mikilvægasti kostur sjóðsmyndunarkerfisins er að meiri tengsl myndast milli inn- og útborgunar einstaklinga. Slík tengsl geta virkað sem hvatning til aukinnar atvinnuþátttöku, dregið úr svartri atvinnustarfsemi og auðveldað hreyfanleika milli landa. Sjóðsmyndunarkerfi getur auk þess leitt til skilvirkari fjármagnsmarkaða eða aukins sparnaðar sem ýtir undir þróun hlutabréfa-, skuldabréfa- og lánamarkaða. Þeim mun stærri sem sjóðirnir verða, þeim mun samofnari verða hagsmunir launafólks og fjármagnseigenda sem fær launafólk til að fallast á hærri ávöxtun fjármagns. Af þessum ástæðum beitti m.a. verkalýðsforystan sér eftir hrun fyrir því að verðtryggingin yrði fryst og setti þannig hagsmuni sjóðanna og fjármagnseigenda ofar hagsmunum skuldsettra félaga.
Einn mikilvægasti ókostur sjóðsmyndunar er að digrir sjóðir koma ekki í veg fyrir að fólk með lág laun eða takmarkaða atvinnuþátttöku fái of lágan lífeyri og búi við fátækt í ellinni. Auðveldara er að jafna lífeyrisréttindi/greiðslur milli tekjuhópa í gegnumstreymiskerfi. Sjóðsmyndunarkerfi viðheldur því tekjuójöfnuði í samfélaginu þar til yfir lýkur. Auk þess telja margir hagfræðingar að sjóðsmyndunarkerfið geti ekki þrifist án gegnumstreymiskerfis vegna mikillar áhættu hvað varðar ávöxtun fjármagnsins og þróun eignaverðs. Á undanförnum 10 árum hefur raunávöxtun sjóðanna aðeins verið um 2,6% en ekki 3,5% eins og sjóðsfélögunum er lofað. Auk þess töpuðu sjóðirnir miklum fjármunum í hruninu vegna óarðbærra fjárfestinga.

Háðir eignatilfærslu
Uppbygging lífeyrissjóða leggur þyngstu byrðarnar á kynslóðina sem byggir upp sjóðina, þar sem hún greiðir bæði iðgjöld í sjóðina og skatt til að fjármagna lífeyri þeirra sem ekki hafa áunnið sér rétt til greiðslu úr sjóðunum. Verðtrygging lána án verðtryggingar launa hefur gert það að verkum að enn þyngri byrðar eru lagðar á yngri kynslóðirnar en þær eldri sem m.a. lögðu grunn að sjóðunum. Verðtrygging ver sjóðina fyrir óvæntum verðbólguskotum eða neikvæðri raunávöxtun. Verðbólguskotið fellur alfarið á lántakendur og eignatilfærsla verður frá þeim til sjóðanna. M.ö.o. sjóðirnir hér á landi hafa ekki einungis verið byggðir upp með iðgjaldagreiðslum heldur síendurtekinni eignatilfærslu frá lántakendum til sjóðanna á verðbólgutímum.

Nauðsynlegt er að auka hlut gegnumstreymiskerfisins þegar lífeyrissjóðirnir geta ekki tryggt viðunandi ávöxtun og tapa eignum. Í nágrannalöndunum er meira jafnvægi milli sjóðsmyndunar- og gegnumstreymiskerfisins, þrátt fyrir meiri efnahagslegan stöðugleika sem réttlætir aukið vægi sjóðsmyndunarkerfisins. Fjármagna þarf aukið vægi gegnumstreymiskerfisins hér á landi með skatti á inngreiðslur í lífeyrissjóðina. Skatturinn mun minnka umfang sjóðanna sem voru fyrir hrun orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf og tóku því mikla áhættu í fjárfestingum sínum.

 

Greinin birtist í DV 25. nóvember 2011

Comments are closed.