Lilja Mósesdóttir

YFIRLÝSING FRÁ LILJU MÓSESDÓTTUR

Ég hef tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér í embætti formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar á landsfundi flokksins í byrjun október og axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði. Ég mun þó vera félagsmaður í SAMSTÖÐU áfram. Fram að næstu alþingiskosningum mun ég einbeita mér að störfum mínum á þingi, þar sem ég hef leitast við að nýta fagþekkingu mína til að bæta stöðu almennings á Íslandi í kjölfar efnahagshruns.

Ójafn leikur

Margar ástæður liggja að baki ákvörðun minni um að sækjast ekki eftir kjöri í embætti formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar á næsta landsfundi flokksins. Þyngst vegur mikill aðstöðumunur milli stjórnmálaflokka hvað varðar fjárframlög úr ríkissjóði og aðgengi að fjölmiðlum. Árlegt framlag til ríkisstyrktu stjórnmálaflokkanna nemur á bilinu 22-90 milljónum, þ.e. til: Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri Grænna, Framsóknar og Borgarahreyfingar/Dögunar. Nýjum stjórnmálasamtökum er hins vegar gert að fjármagna kosningabaráttu sína með styrkjum fram að kosningum. Markmiðið er að koma í veg fyrir að ný framboð ógni tilverurétti ríkisstyrktu stjórnmálaflokkanna. Á Alþingi eru ný stjórnmálasamtök auk þess áhrifalaus.

Viðvarandi fjárskortur nýrra stjórnmálasamtaka dregur úr möguleikum þeirra til að halda úti starfsemi sambærilegri við það sem gerist hjá ríkisstyrktu stjórnmálaflokkunum, þ.e. að fjármagna ferðir um kjördæmin, fundi og auglýsingar. Ný stjórnmálasamtök gætu rutt fjárhagshindruninni úr vegi ef þau hefðu greiðari aðgang að kjósendum í gegnum fjölmiðla. Ég taldi þetta mögulegt þegar við stofnuðum SAMSTÖÐU en reynslan hefur sýnt annað. Fjölmiðlar halda ríkisstyrktu flokkunum kerfisbundið á lofti en hafa lítinn áhuga á starfi þingmanna í nýjum framboðum og vilja yfirleitt ekki taka viðtöl við „óþekkta“ liðsmenn nýrra stjórnmálasamtaka. Það er því nánast ógerningur að koma á framfæri upplýsingum um stefnu og fulltrúa slíkra flokka til almennings. Margir óttast líka ómálefnalega og óvægna umræðu um skoðanir sínar og einkahagi í fjölmiðlum og vilja því síður ganga til liðs við ný framboð sem ekki hafa aðgang að áhrifaríkum fjölmiðli.

Skortur á sýnileika og takmörkuð samskipti við kjósendur koma í veg fyrir að ný framboð nái nógu miklu fylgi til að verða ráðandi afl í íslenskri pólitík. Ný stjórnmálasamtök eru því dæmd til áhrifaleysis að afloknum kosningum og geta hvorki tryggt að stefnumálin nái fram að ganga né að eldmóður, þekking og reynsla kjörinna fulltrúa þeirra nýtist á þingi. Flokkar sem ekki hafa valdastöðu til að breyta ríkjandi valdakerfi samfélagsins verða því aðeins vettvangur fyrir reiði almennings og um leið tæki blekkingarinnar um að hægt sé að ná fram breytingum með nýju stjórnmálaafli.

Marktækni skoðanakannana má draga í efa en fáum dylst að skoðanakannanir eru skoðanamyndandi. Þegar ný stjórnmálasamtök eins og SAMSTAÐA nýtur ekki lengur stuðnings í skoðanakönnunum sem tryggt gæti samtökunum þingsæti að afloknum kosningum á sama tíma og þau hafa ekkert fjárhagslegt bolmagn er lítil von að flokkurinn nái til kjósenda og brjótist út úr vítahring minnkandi fylgis. Í ljósi lítils fylgis SAMSTÖÐU í skoðanakönnunum og umræðunnar í samfélaginu er þó ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að kjósendur séu að leita eftir öðru en því sem ég hef fram að færa.

Barátta fyrir hagsmunum almennings

Í störfum mínum sem þingmaður hef ég einbeitt mér að þeim málaflokkum sem lúta að sérfræðiþekkingu minni og barist fyrir hagsmunum þeirra sem borið hafa þyngstu byrðarnar eftir hrun. Þá sem unnu sér ekki annað til „saka“ en að hafa misst vinnuna, skuldsett sig vegna fasteignakaupa og þurfa að framfleyta sér af launum eða bótum sem ekki duga til framfærslu. Auk þess hef ég reynt að móta umræðuna og koma með óhefðbundnar en raunsæjar lausnir á snjóhengjunni, skuldavandanum, misgengi milli atvinnugreina, gjaldmiðilskreppunni og vanda lífeyrissjóðanna.

Það var aldrei ætlun mín að gerast stjórnmálamaður en mikill meðbyr með málflutningi mínum um fjármálakreppuna varð til þess að ég tók ákvörðun um að bjóða fram krafta mína í síðustu alþingiskosningum. Með framboði mínu vonaðist ég til að geta lagt mitt af mörkum til að endurreisn efnahagslífsins grundvallaðist á hagsmunum almennings. Ég er afar þakklát öllum sem hafa hvatt mig til að nýta fagþekkingu mína í þágu þjóðarinnar á þingi og líka þeim sem hvöttu mig til að stofna nýtt stjórnmálaafl sem ég gerði í samvinnu við góða félaga. Málefnastarfið og samstarfið við félaga SAMSTÖÐU hefur verið mjög gefandi. Nú þegar SAMSTAÐA nýtur ekki lengur sama stuðnings í samfélaginu eins og við stofnun samtakanna er nauðsynlegt að staldra við og íhuga framhaldið.

Þáttaskil

Niðurstaða mín er sú að farsælast sé að gefa ekki kost á mér í embætti formanns SAMSTÖÐU á landsfundi samtakanna í byrjun október og axla þannig ábyrgð á fylgistapinu. Sem þingmaður mun ég halda áfram að leggja mig fram um að bregðast ekki trausti kjósenda og verja vinnutíma mínum og starfsorku í baráttu fyrir réttlátu samfélagi þar sem meiri jöfnuður, velferð og lýðræði ríkir.

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem styrkt hafa SAMSTÖÐU og lagt á sig mikla ólaunaða vinnu til að byggja upp trúverðugan valmöguleika fyrir kjósendur í komandi alþingiskosningum.