Lilja Mósesdóttir

Snjóhengjan ógnar höftunum.

Á morgun legg ég fram á Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir til að leysa varanlega skuldavandann (innra ójafnvægið) og snjóhengjuvandann (ytra ójafnvægið) til að varna yfirvofandi gengishruni og fjöldagjaldþrotum. Aðgerðirnar eru peningamillifærsluleið til að taka á skuldavanda heimilanna og Nýkróna á mismunandi skiptigengi til að leysa snjóhengjuvandann og skuldavanda fyrirtækja.

Hér á eftir fer umfjöllunin um leið til að afnema höftin varanlega. Afnámsáætlun Seðlabankans var ekki hönnuð til að ráða við útgreiðslur úr þrotabúunum. Þrýstingurinn á höftin fer stöðugt vaxandi vegna vaxtagreiðslna, arðgreiðslna og leigutekna. Höftin munu bresta ef ekki er gripið til aðgerða sem tryggja afnám í samræmi við greiðslugetu þjóðarinnar.

Höftin – bann eða skattur

Í október 2008 lagði ég til að útstreymi aflandskróna yrði skattlagt til að draga úr þrýstingi á gengi krónunnar í stað þess að hækka vexti til að styðja við gjaldeyrishöftin. Skatturinn yrði hæstur á þeim aflandskrónum sem færu strax út úr hagkerfinu. Ef aflandskrónueigendur fjárfestu til lengri tíma þá myndi skatturinn stiglækka og fara t.d. úr 90% í 10% eftir 20 ára fjárfestingartíma. Þessari leið var hafnað af AGS í nóvember 2008 sem ráðlagði gjaldeyrishöft sem takmörkuðu með lögum magn fjármagnshreyfinga og hækkun vaxta í 18% til að styðja við höftin. Hátt vaxtastig til að styðja við gjaldeyrishöftin magnaði upp samdráttaráhrifin í hagkerfinu. Afleiðingin var m.a. mun meiri samdráttur í hagkerfinu á árinu 2010 en AGS gerði ráð fyrir, þ.e. -4% í stað 0% hagvöxtur.

Hagfræðingar eru ekki sammála um hvort sé skilvirkara gjaldeyrishöft í formi reglna eða skattlagningar á t.d. útstreymi fjármagns. Með því að innleiða gjaldeyrishöft í formi reglna eins og gert var hér á landi getur Seðlabankinn haft meiri stjórn á magninu sem kemur inn á gjaldeyrisskiptamarkaðinn. Þessu eru öfugt farið með gjaldeyrishöft í formi skattlagningar en þá hefur skatturinn áhrif á hvaða verð er greitt fyrir gjaldmiðilinn. Reynslan sýnir að lönd sem neyðast til að takmarka útstreymi fjármagns eftir bankahrun grípa yfirleitt fyrst til boða og banna til að takmarka það magn sem fjármagnseigendur geta komið úr landi. Jafnframt er algengt að hefja afnám slíkra gjaldeyrishafta með því að skipta yfir í skattlagningu.

Gjaldeyrishöft í formi skattlagningar eru vinsæl þar sem erfiðara er fyrir stjórnmálamenn að hafa bein afskipti af þeim. Auk þess leikur markaðurinn stærra hlutverk við verðmyndun þegar lagður er skattur á fjármagnshreyfingar. Gjaldeyrishöft sem takmarka magn gjaldmiðilsins á gjaldeyrismörkuðum draga hins vegar mun meira úr hættunni á gengishruni.

Afnámsáætlunin ræður ekki við vandann

Fyrsta skrefið í afnámi hafta var stigið í október 2009 þegar Seðlabanki Íslands heimilaði innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga og útstreymi gjaldeyris sem kynni að leiða af þeim fjárfestingum. Ekki var gerð krafa um bindingu fjármagns í ákveðinn tíma. Ný afnámsáætlun var birt í mars 2011 og er það sú áætlun sem nú er unnið eftir. Í áætluninni eru ekki tilgreind tímamörk heldur byggir hún á skilyrðum um að ákveðnar aðstæður ríki í hverju skrefi afnáms.

Skrefin felast í útboði aflandskróna á gjaldeyrismarkaði, skuldabréfaútgáfu í erlendum gjaldmiðlum og útgönguálags (skattur) í samræmi við tillögu mína frá október 2008. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í efnahagslífinu verður eigendum skuldabréfa ríkissjóðs í krónum heimilað að breyta þeim í skuldabréf í erlendum gjaldeyri. Gjalddagi og verð skuldabréfanna munu ráðast af mati á markaðsaðstæðum á þeim tíma. Öllum eigendum aflandskrónuinnstæðna í innlendum bönkum verður sömuleiðis heimilað við ákveðnar aðstæður að skipta þeim í erlendan gjaldeyri gegn greiðslu gjalds sem nemur muninum á aflands‐ og álandsgengi krónunnar.

Seðlabankinn er enn fastur í útboðskrefinu (kaup og sala á erlendum gjaldmiðlum) sem fjárfestar sýna lítinn áhuga.  Í útboðunum er fjárfestum með erlent fjármagn boðið annars vegar að fara fjárfestingarleið eða hins vegar ríkisbréfaleið með kaupum á bréfum í verðtryggða ríkisbréfaflokknum RIKS33 sem eru bundin til 5 ára. Fjárfestingarleiðin er fyrir fjárfesta sem vilja fjárfesta innanlands til a.m.k. fimm ára en þeim er boðið að skipta 50% af erlendu fjárfestingafé sínu yfir í krónur á álandsgengi (skráðu gengi) og 50% á aflandskrónugengi (úboðsmarkaður Seðlabankans). Aflandsgengi krónunnar hefur verið um 30% lægra en álandsgengið, sem runnið hefur að mestu í vasa fjárfestanna sem margir hverjir eru aflandsfélög fyrrum útrásarvíkinga.

Þessir fjárfestar geta boðið hærra verð en aðrir krónueigendur í hlutabréf, skuldabréf, fasteignir, hlutdeildarskírteini eða hlutabréf í verðbréfasjóðum og fjárfestingasjóðum. Aflandskrónurnar sem losaðar hafa verið frá mars 2011 í gegnum ríkisbréfaleiðina og fjárfestingarleiðina eru ekki nema um 5% af vegri landsframleiðslu (VLF). Hátt vaxtastig frá hruni hefur fært aflandskrónueigendum um 1% af VLF í vaxtatekjur sem streymt hafa út úr hagkerfinu.

Aðildarleiðin of áhættusöm

Þess má geta að aflandskrónurnar sem bíða eftir að komast út úr hagkerfinu nema um 25% af VLF. Hætta er á að fjárfestingarleiðin og ríkisbréfaleiðin feli ekki í sér varanlega losun aflandskróna þar sem ekkert kemur í veg fyrir að fjárfestarnir fari aftur út úr hagkerfinu með ríkulega ávöxtun að fimm árum liðnum. Tregða stjórnvalda til að skattleggja strax aflandskrónurnar haustið 2008 hefur orðið til þess að sífellt stærri hluti hans er kominn með ríkisábyrgð í gegnum kaup á ríkisskuldabréfum. M.ö.o. stjórnvöld hafa leyft að einkaskuld (aflandskrónum) sé komið yfir á skattgreiðendur.

Nú þegar slitastjórnir gömlu bankanna eru tilbúnar með nauðasamninga við kröfuhafa um útgreiðslur á eignum (t.d. verðbréfum) þrotabúanna er aflandskrónuvandinn að verða of stór til að leysa með afnámsáætlun Seðlabankans. Þegar útgreiðslur til kröfuhafa gömlu bankanna hefjast bætast um 800 milljarðar við 400 milljarða í aflandskrónum. Þetta mikla fjármagn mun fara á flakk í leit að fjárfestingatækifærum sem ekki eru til staðar í hagkerfinu og framkalla enn eina eignabóluna.

Það sama mun gerast ef farin verður „aðildarleiðin“ sem felst í aðild Íslands að ESB í þeirri von að 1200 milljarða fjárfestingafé streymi inn frá Evrópu á móti sambærilegu útstreymi snjóhengjunnar. Fátt bendir til þess að ESB aðild verði til þess að fjárfestar keppist við að fjárfesta hér á landi nema opnað verði fyrri fjárfestingar í sjávarútvegsfyrirtækjum og orkufyrirtækjum.

Nýkrónan

Um 80% krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings hafa nú skipt um hendur og vísbendingar eru um að þær séu í eigu vogunarsjóða/hrægammasjóða. Í ljósi sögu vogunarsjóða/hrægammasjóða er einsýnt að þeir muni ganga fram af mikilli hörku við að tryggja fullar endurheimtur krafna sinna. Eina færa leiðin sem tryggir hagsmuni almennings er að skipta yfir í Nýkrónu á mismunandi gengi sem endurspeglar verðið sem sjóðirnir greiddu fyrir upphaflegu kröfuna og greiðslugetu þjóðarinnar.

Ég lagði fyrst til í mars 2011 að tekin yrði upp nýkróna með mismunandi skiptigengi til að leysa gjaldmiðilskreppuna. Tillaga mín kom í framhaldi af umræðu Friðriks Jónssonar, ráðgjafa hjá Alþjóðabankanum um slíka lausn í lok árs 2010. Upptaka Nýkrónu með mismunandi skiptigengi mun ekki brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem einstaklingar fá ekki mismunandi meðhöndlun heldur eignir (sbr. aflandskrónurnar sem bannað er að flytja úr landi nema með leyfi Seðlabanka).

Kosturinn við upptöku Nýkrónu er að með mismunandi skiptigengi er hægt að laga bæði innra ójafnvægi (skuldavandann) og ytra ójafnvægi (snjóhengjuna) hagkerfisins án þess að skerða lífskjör. Við upptöku Nýkrónunnar yrði launum, húsaleigu og innistæðum skipt úr krónu (ISK) yfir í Nýkrónu (NISK) á genginu 1 ISK= 1 NISK þannig að verðmæti þeirra yrði óbreytt.

Aflandskrónurnar og innlendar eignir þrotabúanna sem eru um 1200 milljarðar væri hægt að skipta úr krónu yfir í nýkrónu á genginu 1 ISK = 0,6 NISK. Verðmæti snjóhengjunnar færi þannig úr 1200 milljörðum króna í 720 milljarða Nýkróna. Mismunurinn er 480 milljarðar og hann gæfi ríkinu svigrúm til að fjármagna afskriftir á lánum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og laga þannig innra jafnvægið í leiðinni.

Skattur á miklar fjármagnshreyfingar

Mikilvægt er að skattur, sem flutningsmaður lagði til í október 2008, verði lagður á útstreymi þess sem eftir er af snjóhengjunni, þ.e. 720 milljarða aflandskróna, til að varna falli Nýkrónunnar. M.ö.o. útstreymi þessarar fjárhæðar yrði temprað með háum skatti á þær aflandskrónur sem fara fyrst á gjaldeyrismarkað og hann síðan lækkaður verulega eftir margra ára fjárfestingar innanlands.

Varanlegur skattur á óeðlilega miklar fjármagnshreyfingar á gjaldeyrismarkaði af völdum spákaupmennsku hrægammasjóða með krónuna er nauðsynlegur til að tryggja stöðugleika. Hagsveiflur sem rekja má til raunhagkerfisins eða rangrar efnahagsstjórnunar verða til staðar jafnvel eftir upptöku annars gjaldmiðils eins og t.d. evrunnar. Aðlögun að slíkum hagsveiflum kemur annars vegar fram í stórauknu atvinnuleysi eftir upptöku evrunnar en
rýrnun kaupmáttar í gegnum gengislækkun (Ný)krónunnar.

 

Comments are closed.