Lilja Mósesdóttir

Spilaborgin endurreist

Bankahrunið bjó til einstakt tækifæri til að koma á samfélagi, þar sem ríkir heiðarleiki, réttlæti og jafnrétti.  Almenningur mótmælti og krafðist breytinga á kerfi sem alið hafði af sér spillingu og bóluhagkerfi. Stjórnarskipti urðu og við tók hin svokallaða norræna velferðarstjórn sem kosin var á grundvelli loforða um að skjaldborg yrði slegin um heimilin, byrðum fjármálakreppunnar dreift á sanngjarnan hátt og velferðarkerfið varið.

Niðurrif í stað varðstöðu

Skjaldborgin um heimilin náði aðeins inn í raðir þeirra sem ekki gátu greitt af skuldum sínum vegna lágra tekna eða ofurskuldsetningar. Í stað almennrar skuldaleiðréttingar voru innleidd sértæk skuldaúrræði í anda nýfrjálshyggjunnar um að hver væri sinnar gæfu smiður. Vildarvinir bankanna fengu skuldir niðurfelldar án þess að vera gerðir eignalausir en aðrir meðhöndlaðir eins og sveitaómagar. Bönkunum voru gefnar frjálsar hendur að ákveða hvaða heimili og fyrirtæki fengu skuldauppgjöf og hversu mikla. Þannig var skapaður jarðvegur fyrir ákvarðanir um að fórna hagsmunum almennings fyrir hagsmuni bankans. Bankarnir leituðust við að bjarga stórum fákeppnifyrirtækjum og litu framhjá neikvæðum áhrifum björgunaraðgerða sinna á lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa verið mikilvæg í að tryggja samkeppni og atvinnu. Gífurleg eignatilfærsla hefur orðið frá þeim sem þurftu að fjárfesta í fasteign eftir 2004 eða hafa aldrei haft tekjur til að standa undir kaupum á húsnæði og hinna sem fengu lán án verðtryggingar og háa ávöxtun á fjármagn sitt í gegnum verðtryggingu og skattaafslætti.

Í stað þess að standa upp í hárinu á AGS og hafna endurreisn á forsendum fjármagnseigenda skar „norræna velferðarstjórnin“ niður í velferðarkerfinu. Heildarútgjöld ríkisins eru nú sambærileg við það sem þau voru 2003 (sem hlutfall af VLF). Niðurskurðinum er ekki lokið, enn vantar 42 milljarða til að fjármagna vaxtaútgjöld sem urðu til eftir hrun á hávaxtatímabili AGS. Raunhæfum aðgerðum til að verja velferðarkerfið hefur verið hafnað eins og almennri vaxtalækkun, skatti á inngreiðslur í séreignalífeyrissjóði og hvalrekaskatti á ofurhagnað útflutningsfyrirtækja vegna falls krónunnar. Of háir vextir og niðurskurður hafa skapað vítahring minnkandi eftirspurnar, fjárfestinga og tekna ríkissjóðs . Eitt tapað starf í opinbera geiranum þýðir að jafnaði að annað starf tapast í einkageiranum. Þjónusta og bætur til þeirra sem veikastir standa í samfélaginu hafa verið skertar. Helmingur heimila nær ekki endum saman. Örþrifaráð heimilanna og fyrirtækja var að fara í dómsmál gegn bönkunum (gengistryggðu lánin) og taka út séreignasparnaðinn. Aðgerðir sem afstýrt hafa fjöldagjaldþrotum og tryggt veikan hagvöxt í ári.

Plan A(lmennings)

Endurreisn gamla kerfisins og gömlu klíknanna er að verða lokið og erlendir aðilar dásama árangur „norrænu velferðarstjórnarinnar“ og AGS. Skuldakreppan og óánægja almennings með að þurfa að taka á sig þungar byrðar til að hægt sé að endurreisa  spilaborg sem hrundi hefur aukið á upplausnina í samfélaginu sem m.a. birtist í afar litlu trausti á Alþingi og stjórnmálaflokkum. Mikill meirihluti kjósenda telur að  þingið gæti frekar hagsmuna banka en almennings. Áhersla norrænu velferðarstjórnarinnar á að sitja sem lengst í þeirri von að almenningur sjái að lokum hversu mikil „hreinsun“ hefur orðið af hreingerningum hennar eftir hrun ýtir undir reiðina í samfélaginu. Reiðina yfir óréttlætinu  og misskiptingunni sem hreingerningin hefur skapað eftir hrun. Pólitískt uppgjör við menn og málefni sem stýrðu bæði fyrir og eftir hrun er nauðsynlegt ef breytingar eiga að verða. Búið er að afbaka hugtök eins og markaðsbúskap, lýðræði, vinstri – hægri og norræna velferðarkerfið með því að endurreisa fákeppnimarkaði, foringjaræði og nýfrjálshyggjuvelferðarkerfi byggt á sértækum lausnum.

Allsherjaruppstokkunar er þörf sem tekur bæði á hugmyndafræðilegum grunni samfélagsins og hvernig ríkinu og markaðinum er beitt til að tryggja eignarétt og hagsmuni almennings. Koma þarf á dómskerfi, eftirlitskerfi og framkvæmdakerfi sem tryggir heildarhagsmuni þegar þeir eru ekki í samræmi við sérhagsmuni.  Alltof langt hefur verið gengið í að tryggja sérhagsmuni á kostnað almennings þegar kemur að lausnum á skuldakreppunni og yfirráðum þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum. Skuldavandann verður að leysa með úrræðum sem tryggja að tapaðar skuldir séu afskrifaðar, almennur forsendubrestur leiðréttur og að afturvirkni laga gildi um lánadrottna en ekki  aðeins þegar lántakar eiga í hlut. Afnám verðtryggingar  og skattur á útstreymi fjármagns eru forsenda þess að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin hratt. Slíkar breytingar krefjast  þess að bankarnir og lífeyrissjóðirnir axli ábyrgð og að mistökum þeirra sé ekki velt yfir á almenning. Peningastefnunni verður að breyta þannig að markmið hennar verði ekki aðeins að tryggja verðstöðugleika heldur einnig fulla atvinnu. Allir eiga rétt á vinnu.

 

Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka

Comments are closed.