Lilja Mósesdóttir

Valkostir þjóðarinnar – evran eða krónan.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum standa þjóðinni tveir valkostir til boða, þ.e. upptaka evrunnar eða framhaldslíf krónunnar. Báðir valkostir hafa kosti og galla sem þjóðin þarf að vega og meta.  Ákvörðun um framtíðargjaldmiðil er því pólitísk ákvörðun.

Ef þjóðin á að hafa forsendur til að taka ákvörðun  um framtíðargjaldmiðil þarf hún að vita hvernig 1200 milljarða snjóhengjuvandi verður leystur. Snjóhengjan eru eignir áhættufjárfesta sem lánaðar voru fyrir hrun til einkaaðila sem margir hverjir eru gjaldþrota í dag.

Á að gera snjóhengjuna að skuld skattgreiðenda með erlendu láni hjá Seðlabanka Evrópu til að fjármagna útstreymi hennar þegar við hefjum upptöku evrunna  eins og fámennur hópur Evrusinna vill  eða er ætlunin að leyfa snjóhengjunni að flæða út úr hagkerfinu með miklu gengishruni krónunnar?  Hvað með upptöku Nýkrónu á mismunandi skiptigengi til að skrifa niður forðueignir í snjóhengjunni? Þessum brýnu spurningum er ósvarað í skýrslu Seðlabankans en svörin eru forsenda þess að hægt sé að taka afstöðu til valkostanna í gjaldmiðilsmálum.

Við ákvörðun um hvort halda eigi í sjálfstæðan gjaldmiðil eða taka upp evru, þarf þjóðin að velta fyrir sér hvort hún vilji aðlögun að tíðum og miklum sveiflum í raunhagkerfinu í gegnum  fjöldaatvinnuleysi eins og á evrusvæðinu eða almennri launalækkun vegna gengishruns krónunnar. Almenn launalækkun tryggir að allir  – ekki aðeins þeir sem missa vinnuna  – taki á sig byrðar vegna niðursveiflunnar. Launalækkun væri meira í anda jafnaðarmennsku og norræna velferðarkerfisins en fjöldaatvinnuleysi.

Í skýrslunni kemur fram að framboðsskellir séu helstu drifkraftur hagsveiflunnar á Íslandi. Framboðsskellir verða vegna t.d. breytinga í tækniþekkingu eða auðlindanýtingu í raunhagkerfinu (t.d. virkjanir). Samkvæmt kenningunni um hagkvæm myntsvæði eru því líkur á að innlendar hagsveiflur muni aukist við aðild að evrusvæðinu, þar sem innlendir framboðsskellir virðast hafa lítil tengsl við sambærilega skelli á evrusvæðinu.

Þjóðin þarf því að gera sér grein fyrir að við upptöku evru mun aðlögun að niðursveiflu í efnahagslífinu verða í gegnum fjöldaatvinnuleysi. Auk þess eru líkur á að óstöðugleikinn í íslensku efnahagslífi muni aukast við upptöku evrunnar.

Comments are closed.