Lilja Mósesdóttir

júní 12, 2012
by liljam
1 Comment

Afskriftir í nafni mannúðar

Lausn ráðamanna í Evrópu á bankakreppunni er svokallaður agi í ríkisútgjöldum og skuldsetning ríkissjóða til bjargar bönkunum. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, kallaði efnahagsstefnu ESB  sjálfsmorðsstefnuna vegna þess að hún dýpkar kreppuna og gerir aðstæður almennings óbærilegar. Neyðaróp grísku þjóðarinnar, sem getur ekki lengur brauðfætt öll börn sín eða tryggt sjúklingum nauðsynleg lyf, hefur ekki enn megnað að stoppa  Evrópska sjálfsmorðsferlið. Continue Reading →

maí 30, 2012
by liljam
0 comments

Barátta fyrir börnin okkar

Gjá hefur myndast milli þings og þjóðar sem dýpkar stöðugt. Á þingi eru hugsjónir og kosningaloforð of oft látin víkja fyrir sérhagsmunum flokka og foringja. Meirihluti þingsins hefur ítrekað farið gegn meirihlutavilja þjóðarinnar til að tryggja völd ríkisstjórnar sem meirihluti kjósenda vill frá  – en þingmenn annarra flokka verja falli til að koma í veg fyrir lýðræðislegar kosningar. Hugsjónafólk í pólitík er spottað og útilokað frá áhrifum, enda ógn við ríkjandi valdakerfi. Valdakerfi sem endurreist var eftir hrun af hinum svokallaða fjórflokki með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Continue Reading →

maí 13, 2012
by liljam
1 Comment

Skattgreiðendur niðurgreiða lífeyrissjóðina.

Íbúðalánasjóður lánar til almennings á kjörum sem tryggja að lífeyrissjóðirnir fá viðunandi raunávöxtun að þeirra mati. Hlutverk sjóðsins er að tryggja lánsframboð til tekjulágra eintaklinga og þeirra sem búa á jaðarsvæðum. Ávöxtunarkrafa Íbúðalánasjóðs tekur lítið tillit til markaðsaðstæðna í niðursveiflu og almenns forsendubrests eins og ríkir í samfélaginu í dag. Þegar bankar bjóða hagstæðari kjör en lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir til að sætta sig við á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs flýr fólk sjóðinn. Ríkið eykur eigið fjárframlag sitt þegar uppgreiðslur eru meiri en útlán hjá sjóðnum og þegar lántakendur geta ekki lengur staðið undir greiðslu- og skuldabyrðinni vegna forsendubrests. Þannig ver ríkissjóður lífeyrissjóðina gegn skyndilegri uppgreiðslu og útlánatapi Íbúðalánasjóðs. Continue Reading →

maí 3, 2012
by liljam
0 comments

Kreppa krónunnar.

Hér fyrir neðan eru megin drættirnir í ræðu minni á þingi í dag. Ræða sem á  erindi við almenning.…

Kreppa krónunnar birtist í gjaldeyrishöftum sem koma eiga í veg fyrir að 1.000 milljarðar eða snjóhengjan svokallaða streymi úr landinu og gengi krónunnar hrynji.  Snjóhengjan mun halda áfram að vaxa, þar sem ekki má lengur kaupa  gjaldeyri vegna verðbóta á höfuðstól og útgreiðslum úr þrotabúum gömlu bankanna er ekki lokið.

Þrjár lausnir hafa komið fram á þessum vanda:

Í fyrsta lagi, Harðindaleiðin, þ.e.  með gengishruni krónunnar

Í öðru lagi, Skuldsetningarleiðin með upptöku evru og láni hjá Seðlabanka Evrópu eða útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendum gjaldmiðlum.

Í þriðj lagi, Skiptigengisleiðin sem gengur út að skrifa niður forðueignir við upptöku t.d. Nýkrónu.

Einkaskuldum þ.e. snjóhengjunni verður komið yfir á almenning ef við förum Harðinda- eða Skuldsetningarleiðina. Aflandskrónurnar bjuggu gömlu bankarnir að hluta til með peningaprentun og eignir kröfuhafa gömlu bankanna keyptu vogunarsjóðir á brunaútsölu. Peningaprentun og afslátturinn á eignum kröfuhafa eru froðueignir.

Hrapið í lífskjörum almennings kemur svo til strax með Harðindaleiðinni en dreifist yfir fleiri ár með Skuldsetningarleiðinni. Markmiðið með Skiptigengisleiðinni er að skrifa niður froðueignir sem engin greiðslugeta er fyrir til að verja kjör almennings og koma í veg fyrir fátækt og landflótta.

Seðlabankinn hefur innleitt áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem felur í sér gjaldeyrisútboð. Markmiðið er að minnka snjóhengjuna og undirbúa upptöku evrunnar. Nú hefur komið í ljós að lítill áhugi er á þátttöku í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans . Það er því hætta á að gjaldeyrishöftin muni vara til eilífðar.

Í nýlegri skýrslu utanríkisráðherra er fullyrt að krónan komist í skjól með stuðningi Evrópska Seðlabankans eftir inngöngu í ESB. Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðru vísi en svo að taka eigi lán fyrir snjóhengjunni.

Þetta stemmir ekki við svonefnda framvinduskýrslu um aðildarumsókn Íslands frá í mars, en þar er ítrekuð sú skoðun Evrópuþingsins að afnám gjaldeyrishafta sé skilyrði fyrir aðild að sambandinu og upptöku evru.

Ég spyr því efnahags- og viðskiptaráðherra hvort það sé rétt að engin aðstoð muni fást frá ESB við að leysa kreppu krónunnar fyrr en við höfum losað okkur við snjóhengjuna?

Ef enga aðstoð er að vænta frá Evrópska Seðlabankanum og lítill áhugi á uppboðsleið Seðlabankans, hvernig á þá að losa okkur við gjaldeyrishöftin og hvað mun það taka langan tíma?

Seðlabankastjóri fullyrti nýlega að bankinn hafi ekki umboð til að kanna aðra kosti í gjaldmiðilsmálum en upptöku evrunnar. Bankinn hafi því aldrei rætt við t.d. kanadísk og sænsk yfirvöld um möguleika á aðstoð við einhliða upptöku gjaldmiðils þessara landa.

Ég spyr því hvernig standi á því að Seðlabankinn hafi ekki umboð til að meta aðra kosti en upptöku evru eins og lofað er í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna?

Ég velti jafnframt fyrir mér hvort vandi þjóðarbúsins sé ekki fyrst og fremst skuldavandi en ekki krónuvandi eins og talsmenn evrunnar klifa stöðugt á?

Skuldakreppan í Evrópu hefur afhjúpað ókosti sameiginlegrar myntar. Jaðarríki hafa þurft að bregðast við lausafjárvanda með nafnlaunalækkunum og stórauknu atvinnuleysi.  Á sama tíma hafa fjármagnseigendur flúið land með evrurnar sínar.  Munu Íslendingar sætta við slíkar aðstæður?

Ég óttast að þjóðin geri sér ekki grein fyrir því hvað staðan er alvarleg.

Sterk hagsmunaöfl í þjóðfélaginu ætla að koma 1.000 milljarða einkaskuld yfir á almenning með annað hvort gengishruni krónunni eða erlendu láni á okurvöxtum.

Þjóðin virðist ekki átta sig á hagsmunabaráttunni og hallar sér að stjórnmálaflokkum, sem klifa á nauðsyn þess að afnema höftin strax eða fá lán hjá Evrópska Seðlabankanum.

Spyrni þjóðin ekki við fótum eins og í Icesave málinu, þá verður framtíð barna okkar ekki lífvænleg á Íslandi. Velferðarkerfi sem tók áratugi að byggja upp verður eyðilagt í þágu fjármagnseigenda. Við það hverfur réttlætið og mannúðin úr samfélaginu okkar.  Hver vill búa í slíku samfélagi?

Aðeins víðtæk samstaða mun tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi í landi sem er auðugt af mannauði og náttúruauðlindum.

Ég skora á hvern á einn að líta í eigin barm og velta fyrir sér ábyrgð sinni á framtíðinni.

Framtíð sem enn er hægt að móta í þágu mannúðar og réttlætis.