Allir flokkar á þingi eru sammála um nauðsyn þess að draga úr vægi verðtryggingar ekki síst í ljósi síendurtekinna verðbólguskota eftir hrun. Afstaða stjórnarflokkanna er að afnema beri verðtrygginguna án almennrar leiðréttingar, þrátt fyrir að þeir sem tóku á sínum tíma gengistryggð lán standi eftir dóma Hæstaréttar mun betur að vígi en þeir sem tóku hefðbundin verðtryggð íslensk lán. Leiðrétta verður verðtryggð lán til að gera sem flestum kleift að ráða við uppgreiðslukostnaðinn og aukna greiðslubyrði þegar lánum þeirra er breytt úr verðtryggðum í óverðtryggð lán. Án almennrar leiðréttingar mun greiðsluþrot blasa við mörgum eftir afnám verðtryggingar með banni. Þetta á ekki síst við um þann hóp sem keypti fasteign eftir 2004 og tók verðtryggð lán fyrir kaupverðinu þegar fasteignaverð var óeðlilega hátt vegna bólumyndunar.
Verðtryggð lán óleiðrétt
Útreikningar KPMG sýna að 10 milljón kr. lán sem tekið var 2002 stæði nú í tæpum 8 milljónum ef tekið hefði verið ólöglegt gengistryggt lán en í rúmum 15 milljónum ef verðtryggt lán hefði verið tekið. Hér munar 7 milljónum sem stjórnarmeirihlutinn vill ekki leiðrétta um leið og verðtryggingin er afnumin. Stjórnarmeirihluti Samfylkingar og VG ætlar m.ö.o. að leggja blessun sína yfir aukna misskiptingu í samfélaginu sem birtist í því að þyngstu byrðar bankahrunsins verða lagðar á hópinn sem tók verðtryggð fasteignalán. Mikill meirihluti heimila á Íslandi tilheyrir þessum hópi. Samkvæmt Fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans, fyrir árið 2009 voru um fimmtán hundruð íslensk heimili eingöngu með gjaldeyrislán á íbúðum sínum Um 5.500 heimili voru með blönduð íbúðalán, þ.e. bæði verðtryggð og gengisbundin og sjötíu og þrjú þúsund heimili voru eingöngu með verðtryggð lán.
Verðbólgan étur lánin
Undanfarið hafa bankarnir boðið upp á fasteignalán á lágum óverðtryggðum vöxtum sem eru nú orðnir lægri en verðbólgan. Raunvextir óverðtryggðra lána eru því neikvæðir sem heitir á mannamáli að verðbólgan éti upp lánin. Fólk með háar tekjur og/eða litla skuldsetningu er sá hópur sem hefur getað nýtt sér tilboð bankanna um neikvæða raunvexti á fasteignalánum. Margir úr þessum hópi hafa greitt upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði sem aðeins lánar verðtryggð lán og tekið nýtt fasteignalán hjá banka til að njóta góðs af lágum og nú neikvæðum raunvöxtum. Þeir sem virkilega hefðu þurft á neikvæðum vöxtum að halda til að halda draga úr skuldsetningunni á tímum vaxandi verðbólgu sitja hins vegar fastir í verðtryggingunni vegna þess að þeir ráða ekki við að greiða uppgreiðslukostnaðinn og þyngri greiðslubyrði.
Neikvæðir raunvextir á óverðtryggðum fasteignalánum bankanna grafa undan fjármögnun Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn lánar út verðtryggt og gefur út verðtryggð Íbúðabréf til að fjármagna verðtryggð lán til heimila. Þegar verðtryggð lán eru greidd upp getur sjóðurinn ekki greitt upp verðtryggð Íbúðabréf, þar sem þau eru til margra ára. Það er því ljóst að Íbúðalánasjóður mun þurfa laga heimild til að bjóða upp á óverðtryggð fasteignalán og neyðast til að ná samningum við kaupendur Íbúðabréfa um óverðtryggða vexti til að geta keppt við bankanna um viðskiptavini. Ef það gerist ekki, þá mun Íbúðalánasjóður lenda í miklum vanda.
Fram af bjargbrúninni
Brýnt er að velta fyrir sér hvað muni gerist þegar bankarnir neyðast til að leiðrétta of lága óverðtryggða vexti fasteignalána í samræmi við verðbólguþróunina þegar vextirnir eru ekki lengur fastir. Líklegt er að þá muni fjöldi heimila með slík lán lenda í greiðsluþroti og þrýstingurinn á stjórnvöld að koma þessum heimilum til aðstoðar stigmagnast. Ef koma á í veg fyrir slíkt, þá þarf að setja þak á óverðtryggða vexti um leið og verðtryggingin er afnumið.
Í stuttu máli má segja að ríkisstjórnin sé söm við sig þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Fólk er teymt út á bjargbrúnina og vonast til að einhverjir eigi fallhlífar sér til bjargar.