Mikið hefur verið fjallað um einkavæðingu bankakerfisins fyrir hrun en margt er á huldu um einkavæðingu endurreistu bankanna. Við vitum t.d. ekki hvernig samið var um eignarhald þeirra. Vísbendingar eru um að eigendurnir hafi fengið „veiðileyfi“ á fyrirtæki og heimili til að tryggja góðar endurheimtur lána sem hafa verið uppstaðan í mikilli arðsemi nýju bankanna undanfarin ár. Við vitum heldur ekki hverjir eiga endurreistu bankana í dag og á hvaða verði þeir eignuðust kröfurnar á föllnu bankana og með hvaða hætti. Með lögum um fjármálafyrirtæki voru slitastjórar þrotabúa gömlu bankanna skyldaðir til að afhenda kröfuhafalista væri þess óskað. Nú hefur Seðlabankinn upplýst að bankanum hafi gengið illa að fá slíka lista sem er ólíðandi.
Alþingi verður að bregðast við og auka gegnsæið varðandi eignarhald nýju bankanna með lagasetningu sem bannar falið eignarhald fjármálafyrirtækja. Almenningur á rétt á að vita hvort seinni einkavæðing bankanna fól í sér hrægammavæðingu bankakerfisins. Við vitum núna að kröfur í föllnu bankana voru keyptar af hrægammasjóðum á hrakvirði og við vitum líka að hrægammasjóðir eru stofnaðir til að firra eigendur sína allri samfélagslegri ábyrgð. Það gera eigendurnir með því að skrá aðsetur hrægammasjóðanna í skattaskjólum og búa til sjóði sem eiga í öðrum sjóðum sem eiga hrægammasjóði. Andlitslausir hrægammasjóðir munu aldrei gefa eftir kröfuna um að fá eignir sínar, þ.e. kröfurnar, að fullu endurgreiddar þó svo þeir hafi aðeins greitt um 4–5% af andvirði þeirra.
Hrægammasjóðir eru nú langt komnir með að narta í alla parta hagkerfisins. Þeir hafa eignast fyrirtæki með því að lána þeim með veði í sjóðsstreymi þeirra. Þeir hafa keypt upp fasteignir og kröfur af gjaldþrota fyrirtækjum og fólki sem hefur misst allt sitt vegna forsendubrests. Þeir eru tilbúnir að lána ríkinu fyrir afborgunum af erlendum lánum og fjármagna fjárfestingar með veði í auðlindum þjóðarinnar. Markmiðið er að verða ráðandi afl í efnahagslífinu.
Ef við ætlum að koma í veg fyrir gríðarlegan landflótta á næstu árum, þá verða stjórnvöld að sýna hugrekki og láta ríkið yfirtaka eignir hrægammasjóða á hrakvirði. Allir munu skilja nauðsyn þess.
Við eigum að skylda þrotabú gömlu bankanna til að greiða út eignir til kröfuhafa í íslenskum krónum. Útgreiðslurnar í krónum yrðu strax settar inn á bundna reikninga hjá Seðlabankanum (eitt form af eignaupptöku). Seðlabankinn myndi síðan taka ákvörðun um hvenær, hversu mikið og á hvaða verði yrði hægt að skipta „hrægammakrónum“ yfir í erlendan gjaldmiðil. Þessi leið gengur sennilega gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasamningum.
Ég hef því lagt til upptöku nýkrónu á mismunandi gengi. Upptakan færi þannig fram að þegar slitastjórnirnar væru búnar að skila erlendum eignum þrotabúanna, þá yrði tekin upp nýkróna á mismunandi skiptigengi. Erlendar eignir þrotabúanna eru um 1.800 milljarðar. Kröfuhafarnir myndu hins vegar aðeins eiga 1.080 milljarða í nýkrónum á bundnum reikningum í Seðlabankanum ef skiptigengið yrði ein nýkróna á móti 0,6 gömlum krónum. Mismuninn (720 milljarðar) gæti Seðlabankinn notað til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð sinn til að eiga fyrir afborgunum og vaxtagreiðslum þjóðarinnar af erlendum lánum.