Tillaga um að veita fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að selja eignarhluti ríkisins í Landsbankanum, Arion banka, Íslandsbanka og sparisjóðunum er komin á dagskrá þingsins. Stjórnarflokkarnir áforma að samþykkja söluheimildina fyrir jól.
Í gær lagði ég fram tillögu um að vísa málinu frá og rökstuddi hana með eftirfarandi rökum.
Í fyrsta lagi er mun meiri samþjöppun á bankamarkaði hér á landi en almennt gerist í öðrum löndum og rekja má hátt vaxtastig hér á landi samanborið við önnur lönd til mikillar samþjöppunar á bankamarkaði sem hefur aukist eftir hrun.
Í öðru lagi er verð á hlutabréfum og þá sérstaklega bönkum er lágt núna vegna fjármálakreppunnar og því borgar sig fyrir skattgreiðendur að bíða með söluna,
Í þriðja lagi verður hlutur ríkisins í bönkunum keyptur af vogunarsjóðum sem nú eru lokaðir inni í hagkerfinu með mikla fjármuni en slíkir eigendur banka ógna fjármálastöðugleikanum í landinu.
Samþjöppun: háir vextir og miklar arðgreiðslur
Samkvæmt nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins mælist samþjöppun á bankamarkaði vera tæp 2.700 stig eftir samruna Landsbankans og SpKef á hinum svonefnda Herfindahl- Hirschman kvarða. Fram að hruni var samþjöppunarstuðullinn hins vegar undir 2.000 stigum en almennt telst markaður mjög samþjappaður ef stuðullinn er hærri en 1.800 stig. Samþjöppun vísar hér til markaðshlutdeildar banka og sparisjóða í innlánum.
Bankar sem búa við mikla samþjöppun eða fákeppni geta krafist mun hærri vaxta á útlánum sínum og þjónustugjalda en bankar á samkeppnismarkaði. Stjórnmálaflokkar sem vilja tryggja að fákeppnishagnaðurinn renni í vasa almennings í gegnum arðgreiðslur og lægra vaxtastig berjast fyrir því að ráðandi banki/bankar séu í almannaeigu eða eigu viðskiptavina sinna (sparisjóðir). Búið er afhenda nýju viðskiptabönkunum perlur sparisjóðakerfisins. Enn frekari einkavæðing bankanna mun gefa vogunarsjóðum óhindraðan aðgang að eigum skuldsettra heimila og fyrirtækja í gegnum hátt vaxtastig og verðtrygginguna.
Bankar á hrakvirði
Komið hefur fram við umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd að lítill áhugi sé nú meðal fjárfesta að eignast hlut í banka vegna fjármálakreppunnar. Verð á hlutabréfum banka er því lágt. Líkur eru því á að vogunarsjóðir sem nú eru lokaðir inni með eignir sínar vegna gjaldeyrishaftanna séu þeir einu sem áhuga hafa á að kaupa eignarhlut ríkisins í bönkunum þar sem eignarhaldið gæti auðveldað þeim að koma eignum úr landi.
Salan ógnar efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar
Eitt af því sem einkennir viðskiptabanka er að eigendur þeirra geta tekið mikla áhættu án þess að þurfa sjálfir að taka á sig kostnaðinn ef illa fer (freistnivandi). Arion banki og Íslandsbanki eru nú þegar í meirihlutaeigu vogunarsjóða. Markmið vogunarsjóða er að innleysa eign sína sem fyrst með sem mestum hagnaði án tillits til afleiðinganna fyrir aðra. Vogunarsjóðir sem gera út á áhættu munu því ekki hika við að taka ákvarðanir sem krefjast þess að stjórnvöld grípi inn í ef illa fer til að varna bankahruni eða lágmarka skaðann af bankahruni. Eignarhald vogunarsjóða ógnar því fjármálastöðugleika landsins.