Vorið 2009 samþykkti ég þingsályktunartillögu um að senda inn aðildarumsókn til ESB til að koma til móts við kjósendur sem þrýstu mjög á að farið yrði í þennan leiðangur til að kanna hver niðurstaðan yrði. Ég var í hópi þeirra sem töldu að kanna þyrfti alla valkosti Íslands eftir hrun bæði bankakerfisins og gjaldmiðilsins. Í umræðum um aðildarumsóknina á þingi var rætt um nauðsyn þess að fá aðstoð Evrópska Seðlabankans við að finna lausn á gjaldmiðilskreppu okkar. Auk þess voru bundnar vonir við að ljúka mætti aðildarviðræðunum á einu og hálfu ári, þar sem á Íslandi væri nú þegar búið að innleiða stóran hluta af regluverki ESB.
Nú eru liðin nær þrjú ár og ekkert bólar á aðstoð Evrópska Seðlabankans og gjaldmiðilsvandinn eykst ár frá ári. Tilkynnt hefur verið að aðildarsamningur muni ekki liggja fyrir þegar gengið verður til kosninga á næsta ári. Enn á ný munu kosningar snúast um draumsýn þeirra sem vilja inn í ESB í stað lausna á efnahagsvandanum og framtíðarsýn okkar sem þjóðar. Seðlabankinn hér á landi vinnur eftir þeirri pólitísku stefnu að taka eigi upp evru og því er ekki verið að vinna að mótun sjálfstæðrar peningastefnu. Á sama tíma bendir allt til þess að aðildarumsóknarferlið muni dragast lengur en nú er viðurkennt, þar sem aðildarlönd ESB hafa lítinn áhuga á að taka inn nýtt aðildarland fyrr en búið er að leysa vanda evrusvæðisins. Vanda sem gæti tekið áratugi að vinda ofan af.
Ástæðan er sú að lausnir ESB magna upp vandann. Aðgerðirnar fela í sér niðurskurð velferðarkerfisins, skerðingu réttinda á vinnumarkaði, lækkun atvinnuleysisbóta og lífeyris og launalækkanir í ekki síst ríkisgeiranum. Lausnir í anda nýfrjálshyggjunnar, þar sem ráðist er á afleiðingar vandans en ekki rót hans. Rót vandans er ójafnvægi á viðskiptajöfnuði evrulandanna sem stafar af því að afgangur á viðskiptum Þjóðverja við umheiminni streymdi til m.a. Írlands, Spánar og Ítalíu í formi lána á lágum vöxtum sem mynduðu fasteignabólu en ekki verðmæti. Í stað þess að laga ójafnvægið þegar fasteignabólan sprakk og neyða þjóðverja til að afskrifa skuldir og skapa almenna eftirspurn voru skattgreiðendur neyddir til að bjarga bankakerfum í lausafjárvandræðum og lífskjör skert til að tryggja að þjóðverjar endurheimtu lán sín. Lausnir ESB á vanda evrusvæðisins staðfesta endanlega að búið er að ýta norrænum áherslum (félagsleg réttindi og velferð) út af borði framkvæmdastjórnar ESB. Tilraun Norðurlandanna til að móta stefnu ESB mistókst og val þeirra snýst því um að eyða öllum merkjum hins svokallaða norræna velferðarsamfélags og aðlagast ESB eða fara sína eigin leið.
Aðildarumsókn okkar er komin í sjálfheldu og það sem verra er hún er orðin dragbítur á lausn efnahagsvandans, þar sem alltaf er verið að ræða óraunhæfar lausnir eins og upptöku evrunnar sem lausn á skuldavanda heimilanna (lægri vextir og afnám verðtryggingar) og snjóhengjunni sem nú nemur um 1.000 milljörðum og leyfa á að streyma út úr hagkerfinu með rándýru risaláni frá ESB. ESB á jafnframt í deilum við okkur vegna makrílveiða og ákvörðunar Íslendinga að semja ekki um greiðslu á Icesave skuldbindingu gamla Landsbankans. Deilur sem Íslendingar munu þurfa að gefa mikið eftir í til að liðka fyrir aðildarsamningi. Aðildarumsóknin er farin að tefja uppbygginguna eftir hrun og því verður að leyfa kjósendum að taka ákvörðun um hvort draga eigi umsóknina til baka. Ég tek undir áskorun stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík um nauðsyn þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina fyrir árslok!
Pingback: Skráning á landsfundinn er hafin « Samstaða