Fram að hruni fullyrtu margir að við Íslendingar byggjum við besta lífeyriskerfi í heimi. Brot komu í þessa jákvæðu mynd af yfirburðastöðu lífeyriskerfis okkar þegar í ljós kom að sjóðirnir höfðu tapað miklu í hruninu og höfnuðu algjörlega sanngjarnri kröfu almennings um að þeir tækju á sig hluta verðbólguskotsins sem alltaf fylgir í kjölfar í bankahruns. Nú hefur verðbólguskotið hækkað verðtryggðar skuldir heimilanna um 420 milljarða en sjóðirnir töpuðu a.m.k. 480 milljörðum í hruninu.
Verðtryggingarvörnin dugar ekki
Vörnin sem verðtryggingin veitir sjóðunum gegn óvæntum verðbólguskotum hefur ekki dugað til að tryggja 3,5% raunávöxtun frá 2007. Til að mæta tapinu í hruninu og of lágri raunávöxtun (2,5%) hafa sjóðirnir skert réttindi um 130 milljarða á hinum almenna vinnumarkaði en enn vantar þá a.m.k. 120 milljarða til að þeir geti staðið við réttindaloforð sín. Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, sem töpuðu líka á fjárfestingum sínum í hruninu, eru auk þess að sligast undan réttindum sem margir sjóðsfélagar fengu í kaupum fyrir mun lægri laun en greidd voru á hinum almenna vinnumarkaði.
Að óbreyttu stefna lífeyrissjóðirnir okkar í þrot þar sem eignir sjóðanna munu ekki duga til að greiða lífeyri sem sjóðsfélögum hefur verið lofað. Fjármálaeftirlitið hefur því lagt til hækkun iðgjalda, frekari skerðingu réttinda og hækkun lífeyrisaldurs sem er nú þegar sá hæsti í Evrópu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa samþykkt að hækka iðgjöld úr 12% í 15,5% á hinum almenna vinnumarkaði og Fjármáleftirlitið vill að iðgjaldið verði hækkað úr 15,5% í 20% hjá opinberum starfsmönnum.
Í raun er verið að leggja til að við herðum kapphlaupið við að safna í lífeyrissjóði með því að greiða hærra iðgjald í lengri tíma og sættum okkur við lakari réttindi. Þessi tillaga ætti að fá marga til að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að staldra við og velta fyrir sér hvort við erum á réttri braut.
Veikleikar sjóðanna afhjúpaðir
Fjármálakreppan afhjúpaði veikleika lífeyrissjóðakerfis (sjóðsmyndunarkerfis) sem byggir á þeirri forsendu að ávöxtun á fjármálamarkaði sé alltaf meiri en hagvöxtur (þ.e. aukning raunlauna) og að sjóðirnir geri ekki mistök í fjárfestingum (hafi fullkomnar upplýsingar). Ef þessar forsendur standast ekki, þá hefur sjóðsmyndunarkerfið ekki lengur yfirburði gagnvart gegnumstreymiskerfinu (almannatryggingakerfinu). Auk þess leiddi fjármálakreppan til mikillar eignaverðslækkunar sem margir álíta nú að geti gerst aftur þegar digrir lífeyrissjóðir þurfa að selja hluta eigna sinna til að fjármagna lífeyrisgreiðslur.
Ef eignaverð lækkar við sölu eigna lífeyrissjóðanna þá munu (fjármagns)tekjur skattgreiðenda lækka. Vinnandi kynslóðir munu þá þurfa að taka á sig auknar byrðar vegna fjölgunar lífeyrisþega í gegnum lægri (fjármagns)tekjur. Sama gerist í gegnumstreymiskerfinu, þar sem hækka þarf skatta til að mæta fjölgun lífeyrisþega.
M.ö.o. fjármálakreppan afhjúpaði goðsögina um mikla yfirburði lífeyrissjóðakerfisins (sjóðsmyndunarkerfisins) samanborði við almannatryggingakerfið (gegnumstreymiskerfið) við að takast á við fjölgun lífeyrisþega.
Sameiginlegir hagsmunir
Við vitum núna að lífeyrissjóðir geta rýrnað og tapast. Auk þess hefur alltaf legið ljóst fyrir að lífeyrissjóðakerfið tryggir hvorki jöfnuð né lífeyri sem dugar til framfærslu fyrir hvern og einn þar sem réttindin fara eftir launum viðkomandi yfir starfsævina. Uppbygging lífeyrissjóðakerfisins leggur jafnframt afar þungar byrðar á kynslóðirnar sem byggja upp sjóðina. Þessar kynslóðir þurfa að greiða skatta til að fjármagna lífeyri eldri kynslóða sem ekki eiga rétt á lífeyri og safna upp fyrir eigin sparnaði. Viðvarandi halli á lífeyrissjóðakerfinu (um 670 milljarðar í dag) þýðir auk þess að vinnandi kynslóðir eru að gefa eftir réttindi sín til að fjármagna lífeyri þeirra sem hafa hafið töku lífeyris. Á Íslandi hefur átt sér stað óvenjuhröð uppbygging lífeyrissjóðakerfis í gegnum verðtrygginuna sem er að sliga skuldsett heimili.
Eftir bankahrun hafa lífeyrissjóðirnir verið háðir viðvarandi hallarekstri hins opinbera þar sem fá önnur örugg fjárfestingartækifæri er að finna í atvinnulífinu. Í dag eru um 50% af eignum sjóðanna í verðbréfum sem ríki og sveitarfélög hafa gefið út. Krafa lífeyrissjóðanna um að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum til að fjárfesta erlendis mun því aukast í takt við minnkun hallans.
Fram til þessa hafa lífeyrissjóðir gleypt megnið af sparnaði landsmanna. Atvinnulífið hefur því haft mjög takmarkaðan aðgang að lánsfé (sparnaði) til að fjármagna áhættusamar fjárfestingar eins og nýsköpunarstarfsemi og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra. Gífurlegur þrýsingurinn hefur því verið á lífeyrissjóðina að fjárfesta í of áhættusömum fjárfestingarkostum.
Það eru því sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnulífsins að breytingar verði gerðar á lífeyriskerfinu.
Blandað kerfi best
Margir velta því fyrir sér hvort leggja eigi lífeyrissjóðakerfið niður og taka aftur upp gegnumstreymiskerfið eða efla almannatryggingakerfið (gegnumstreymiskerfið). Vandamálið við gegnumstreymiskerfið er að það byggir alfarið á vilja fólks til að greiða skatta og jafnvel hærri skatta ef hagvöxtur heldur ekki í við fjölgun lífeyrisþega. Eins og við vitum öll þá njóta stjórnmálaflokkar á Íslandi sem boða skattalækkanir afar mikils fylgis. Þessi áhersla skýrir m.a. hvers vegna gegnumstreymiskerfið er rúmlega helmingi minna að umfangi hér á landi en á Norðurlöndunum. Greiðslur Tryggingastofnunar námu aðeins um 36% af heildargreiðslum lífeyris í landinu á árinu 2011.
Þær breytingar sem við í SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar viljum sá á lífeyriskerfinu til að varna þroti þess í nánustu framtíð er blandað kerfi. Við viljum lífeyriskerfi, þ.e. gegnumstreymstreymiskerfi (80-60%) sem greiðir öllum viðunandi lífeyri og lífeyrissjóðakerfi (20%-40%) sem sér um ávöxtunina á markaðsforsendum viðbótarlífeyris. Þetta mun þýða að ríkið þarf að yfirtaka samtryggingarhlutann (iðgjaldagreiðslur og skuldbindingar) í lífeyrisjóðakerfinu á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði.
Gegnumstreymiskerfið mun því verða mjög stórt í upphafi en síðan fara minnkandi með vaxandi viðbótariðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði. Skattur verður tekinn af öllum iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðakerfinu til að koma í veg fyrir tap skattgreiðenda vegna rangra fjárfestinga og til að fjármagna skuldbindingar hins opinbera.
Ávinningur þess að auka hlut gegnumstreymiskerfisins verulega í blönduðu lífeyriskerfi er að fátækt meðal lífeyrisþega mun minnka og minni líkur verður á því að lífeyrir rýrni og tapist.