Það er algjörlega óásættanlegt að „losa höftin“ með því að láta íslenskan almenning taka á sig stórfelda lífskjaraskerðingu til að hámarka verðmæti eigna sem hrægammar keyptu með miklum afslætti á brunaútsölu eftir hrun. Stjórnvöld sem ekki skattleggja allar innistæðulausar bólueignir (eignir kröfuhafa og aflandskrónueigna) við „losun hafta“, eins og ég lagði m.a. til í nóvember 2008, eru ekki að gæta hagsmuna almennings og heldur ekki að leysa snjóhengjuvandann varanlega. Skattlagning er ekki brot á eignarrétti hrægamma og því eina færa leiðin til að losa okkur undan oki þeirra. Gæti stjórnvöld ekki hagsmuna almennings með skattlagningu snjóhengjunnar kemur til kasta forseta Íslands að senda lög um losun hafta í þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er því mikilvægt að kjósa forseta sem mun senda slík lög í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert var í Icesave málinu.
Hrægömmum sem keyptu eftir hrun verðlitlar kröfur á föllnu bankana og verðlausar aflandskrónueignir tókst með aðstoð AGS, ríkisstjórnarflokkanna eftir hrun, seðlabankans og innlendra sérfræðinga að tryggja sér hagstæðustu leiðina við „losun hafta“. Ávinningur íslenska stjórnkerfisins er klapp á bakið frá „alþjóðasamfélaginu“ fyrir að standa vörð um hagsmuni hrægamma og ríkulegir bónusar til sérfræðinga hrægammanna. Samstarfsaðilar hrægammanna á Íslandi og fjölmiðlar þeirra lögðu mikið á sig í aðdraganda síðustu kosninga til að tryggja kjör flokka sem ekki ógnuðu hagsmunum þeirra. Það tókst og hrægammarnir fengu 400-500 milljörðum meira í sinn hlut við uppgjör föllnu bankanna, þar sem þeim var aðeins gert að greiða stöðugleikaframlag en ekki stöðugleikaskatt.
Frá hruni hefur skuldsetti hluti þjóðarinnar verið neyddur með aðstoð lífeyrissjóðanna að fjármagna ávöxtun verðlítilla eigna hrægamma sem hafa verið lokaðar inni í hagkerfinu. Ávöxtunin í formi vaxta og verðtryggingar er hærri en nokkur samanburðarþjóð treystir sér til að standa undir. Evrópumetið í ávöxtun fjármagns hefur étið upp eignir skuldsettra heimila og fyrirtækja ásamt því að ræna lífsgæðum frá unga fólkinu okkar. Unga fólkið hefur því ekki haft sömu tækifæri til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og nýta menntun sína á vinnumarkaði eins og kynslóðarinar á undan henni. „Losun hafta“ nú mun ekki losa þjóðina undan vaxtaokrinu, þar sem lokka á hrægamma til að halda áfram að ávaxta fé sitt á Íslandi með evrópumeti í vaxtastigi – þökk sé Seðlabanka Íslands sem kann engin önnur ráð við efnahagsvanda. Auk þess þarf að tryggja lífeyrissjóðunum, sem ekki falla undir „losun hafta“, viðunandi ávöxtun eftir mikla rýrnun sjóðanna í hruninu.
Losun aflandskróna út úr hagkerfinu er gleðiefni fyrir hrægamma sem keyptu aflandskrónueignir á brunaútsölu eftir hrun og íslenska fjárfesta sem hafa skráð eignarhaldið á erlend aflandsfélög. Þessir aðilar geta nú farið út úr hagkerfinu með „eignir sínar“ á meðan íslenskur almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir sitja eftir innan fjármagnshafta. Hér er í raun verið að verðlauna þá Íslendinga sem nota aflandsfélög til að fela eignarhald sitt til að sniðganga lög og skatta.
Í nýjasta frumvarpinu um losnun hafta er viðurkennt að ekki verði hægt að losa út allar aflandskrónueignir, þar sem íslenska þjóðin hefur ekki efni á að fjármagna útstreymi 319 milljarða og annarra krónueigna á leið úr landi. Það verður því áfram hætta á að seðlabankinn missi stjórn á útstreymi innistæðulausa bólufjármagnsins við losun hafta. Það mun leiða til lækkunar á gengi krónunnar, aukinnnar verðbólgu og þyngri vaxtabryði skuldsettra heimila og fyrirtækja. Slíka áhættu hafa stjórnvöld ekkert umboð til að taka og eiga því að grípa til skattlagningar til að eyða vandanum.