Lilja Mósesdóttir

Hvar er hin norræna velferð „vinstri stjórnarinnar“?

Velferðarstefna ríkisstjórna birtist með skýrum hætti í fjárlagafrumvarpi hvers árs. Núverandi ríkisstjórn, sem kallar sig vinstri stjórn og kveðst hafa norræna velferð að leiðarljósi, hefur marg oft lýst því yfir að við niðurskurð á halla ríkissjóðs yrði forgangsraðað í þágu velferðar. Þegar fjárlagafrumvarpið fyrir 2012 var skoðað kom annað í ljós.

Við lögðum fram 89 tillögur til breytinga á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 til að sýna með skýrum dæmum að unnt væri að forgangsraða mun betur í þágu velferðar. Í tillögum okkar völdum við velferð fram yfir útgjöld til ESB – umsóknarinnar og óskilgreinda opna liði um „ýmis framlög“ sem við töldum vera ávísanir á geðþótta úthlutanir ráðherra. Við völdum velferð fram yfir sífellt aukin útgjöld aðalskrifstofa ráðuneytanna. Mannúðarmál og neyðaraðstoð í stað hernaðar í nafni friðargæslu. Við völdum velferð og að styrkja jafnréttismál fram yfir kostnað við stjórnsýslu. Við völdum velferð fram yfir gríðarlega aukin útgjöld til Fjármálaeftirlitsins og fleiri stofnana, svo nokkur helstu dæmin séu nefnd.

Við völdum norræna velferð í þessum tillögum okkar meðvituð um að unnt væri að skera burt mun fleiri fitulög fjárlagafrumvarpsins í sama skyni. Það er full ástæða til að draga fram ýmsar af þessum velferðartillögum og um leið tillögur okkar um niðurskurð til að mæta þeim.

Við lögðum til 600 milljóna viðbótarframlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem skiptist hlutfallslega eftir stærð þeirra til að koma í veg fyrir niðurskurð á þjónustu og 130 milljóna króna viðbótarframlög til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Við lögðum til 104 milljón króna viðbótarframlög til löggæslu á landsbyggðinni. Við lögðum til 62 milljóna króna viðbótarframlög í opinbera réttaraðstoð og til bóta fyrir brotaþola og 90 milljón króna viðbótarframlög til Jafnréttisstofu, Stígamóta og Kvennaathvarfsins í Reykjavík. Við lögðum til 50 milljón króna til hins sígræna og öfluga verkefnis „Bændur græða landið“ og 70 milljón króna viðbótarframlög til Náttúrustofa á landsbyggðinni, sem eru augu og eyru Náttúrufræðistofnunar Íslands á landsbyggðinni. Þessi viðbótarframlög nema samtals um 1.100 milljónum en þá eru ýmis önnur velferðarframlög ótalin. Við forgangsröðuðum í þágu þessara málaflokka og fleiri en skárum niður á móti fjárlagaliði sem varða ekki velferðarmál.

Við skárum niður beinan ESB-umsóknarkostnað um 450 milljónir. Við skárum niður útgjöld til aðalskrifstofa ráðuneytanna um 325 milljónir til að ná niðurskurðarforsendum sl. þrjú ár. Við skárum niður framlög til sendiráða um 100 milljónir. Framlög til Fjársýslu ríkisins, Framkvæmdasýslu ríkisins og Bankasýslu ríkisins um 42,1 milljón. Við skárum niður framlög til nýrra aðstoðarmanna ráðherra og óskilgreindar ríkisstjórnarákvarðanir um 200 milljónir. Framlög til Fjármálaeftirlitsins, FME, og Samkeppniseftirlitsins um 170 milljónir og höfnuðum 548 milljón króna aukaframlagi til FME. Og við skárum niður ýmis óskilgreind framlög, ávísanir á geðþótta, um tugir milljóna.

Þessi niðurskurður nemur allt að 1.300 milljónum. Við það bætist 548 milljóna viðbótarframlagið til FME sem kom fram við þriðju umræðu. Framlagið til FME er sótt beint til fjármálastofnana en hægt hefði verið að nota það til að fjármagna vaxtabætur og velferð.

Við skárum einnig niður meint ófyrirséð en óskilgreind útgjöld fjármálaráðuneytisins um 2.987 milljónir og lögðum á móti til að ríkisstjórnin stæði við gefin loforð í kjarasamningum sl. vor um að atvinnuleysisbætur og lífeyrir frá almannatryggingum fylgdu umsömdum hækkunum.

Framanritaðar tölur sýna svo ekki verður um villst að unnt er að forgangsraða miklu mun betur í þágu norrænnar velferðar. Ríkisstjórnin, sem skreytir sem með stolnum vinstri fjöðrum, valdi aðrar leiðir. Hún valdi að forgangsraða í þágu ESB umsóknarinnar, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fleiri liða sem standa langt að baki öllum velferðarhugsjónum og hafnaði öllum velferðartillögum okkar. Meira að segja tillaga um aukið framlag til Jafnréttisstofu, sem er í samræmi við stefnuskrár og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, hlaut ekki náð í augum stjórnarliða. Framlög til Jafnréttisstofu námu 134,9 milljónum árið 2009 en eru samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 83 milljónir. Fjárlög ríkisstjórnarinnar eru bæði jafnréttis- og landsbyggðarfjandsamleg. Þegar lög um tekjuöflun ríkissjóðs voru afgreidd höfnuðu Samfylkingin og VG auk þess tillögu okkar um fjórða skattstigið af tekjum yfir 1.200.000 kr. á mánuði til jafna skattbyrðar og auka jöfnuð í samfélaginu. Og nú vill ríkisstjórnin staðfesta hjúskap sinn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með 37 milljarða fjárframlagi. Það er stærsti og dapurlegasti heimanmundur í Íslandssögunni.

Atli Gíslason, alþingismaður, og

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður

 

Comments are closed.