Lilja Mósesdóttir

Leggjum á útgönguskatt og tryggjum hagsmuni þjóðarinnar.

Starfsfólk hrægammasjóða á Íslandi og andstæðingar útgönguskatts keppast nú við að telja þjóðinni trú um að slíkur skattur sé ólöglegt eignarnám. Slíkar fullyrðingar eru rangar og settar fram til að drepa niður allar tilraunir til að tryggja að almenningur fái stærstan hluta loftbóluhagnaðarins sem myndaðist þegar  forgangskröfur í þrotabúin gengu kaupum og sölum eftir hrun á 4-30% af nafnvirði krafnanna.

Eftir bankahrunið keyptu hrægammasjóðirnir forgangskröfur sem skráðar voru á 100 kr. fyrir 4-30 kr. Þegar greitt verður úr þrotabúunum fá þeir 100 kr. greiddar fyrir þessar forgangskröfur og hagnað á bilinu 96-70 kr. sem rennur beint í vasa þeirra ef ekki verður lagður á útgönguskattur. AGS áætlar að kostnaður skattgreiðenda af hruninu nemi um 750 milljörðum (44% af VLF árið 2011).

Eignarhlutur hrægammasjóðanna nemur í raun aðeins 4-30 kr. Í ljósi þess að einkaaðilar en ekki skattgreiðendur ollu hruni bankanna og gengisfellingu krónunnar er réttlætanlegt að útgönguskattur sé lagður á sem tryggir að ríkissjóður (skattgreiðendur) fái svo til allan hagnað hrægammasjóðanna.

Útgönguskattur er í raun leið skattgreiðenda til að þvinga hrægammasjóði til að sýna samfélagslega ábyrgð.  Reynsla annarra þjóða af samningum við hrægammasjóði (sbr. Argentína) sýnir að sjóðirnir eru ekki tilbúnir til að sýna samfélagslega ábyrgð án þvingunar.

Útgönguskatturinn þarf að vera mun hærri en 35% til að tryggja að almenningur fái stærsta hluta hagnaðarins hrægammasjóðanna og til að koma í veg fyrir gengishrun krónunnar þegar greitt verður úr þrotabúunum. Útgönguskatt þarf að leggja á í tveimur hlutum. Fyrst á útgreiðsluna úr þrotabúunum (Útgöngugjald) og síðan á fjármagn úr m.a. þrotabúunum og aflandskrónur sem skipt er yfir í erlendan gjaldeyri til að koma í veg fyrir gengislækkun krónunnar (Liljuskattur).

Þessi tvískipti útgönguskattur er í raun önnur aðferð til að ná fram sama markmiði og liggur til grundvallar Skiptigengisleiðinni, þ.e. að tryggja hagsmuni almennings í lokauppgjöri hrunsins (http://liljam.is/greinasafn/2013/mai-2013/lausn-skulda-og-snjohengjuvandans/)

Nú verða íslensk stjórnvöld að standa í lappirnar og verja hagsmuni þjóðarinnar!

Comments are closed.