Lilja Mósesdóttir

Hrægammasjóðir vilja Ísland á hrakvirði.

Baráttan framundan snýst um hvort Ísland verði land hrægammasjóða eða almennings. Þeir sem ekki átta sig á því eru vanhæfir til að stjórna landinu!

Kröfur á föllnu fjármálafyrirtækin hafa gengið kaupum og sölum. Fram hefur komið að um 80% krafna Glitnis og Kaupþings hafi skipt um hendur og fullyrt er að vogunarsjóðir hafi keypt upp stóran hluta þeirra. Telja má víst að um sé að ræða hrægammasjóði (vulture funds). Erfitt er að henda reiður á hvaða vogunarsjóður er hreinn hrægammasjóður enda reyna þeir að fela sitt rétta andlit. Það sem einkennir hrægammasjóði er kaup þeirra á erlendum kröfum eða skuldabréfum sem upphaflegir lánveitendur eru sannfærðir um að lítið sem ekkert fáist upp í. M.ö.o. hrægammasjóðir eru verðbréfasjóðir (private equity funds) eða vogunarsjóðir (hedge funds) sem sérhæfa sig í uppkaupum á verðlitlum kröfum gjaldþrota fyrirtækja og ríkissjóða í greiðsluerfiðleikum. Hrægammasjóðir ráðast á umkomulaus fórnarlömb á meðan hrægammarnir sem þeir eru kenndir við láta ekki til skarar skríða fyrr en bráðin er auð.

Hrægammasjóðir ganga frá bráðinni.

Markmið hrægammasjóða er að innheimta kröfurnar sem þeir fengu á hrakvirði á fullu verði (nafnvirði). Hrægammasjóðir gefa því ekkert eftir í samningaviðræðum og ekki er hægt að treysta á samninga við þá um greiðslu í samræmi við verðið sem þeir greiddu fyrir kröfuna. Slíkir samningar um skuldir líberíska ríkisins (eitt af fátækustu ríkjum heims) urðu til þess að hrægammasjóður, sem var hluti af samkomulaginu, seldi einfaldlega öðrum hrægammasjóði kröfurnar. Sá sjóður fór í dómsmál til að tryggja fulla greiðslu þessara krafna ásamt vöxtum. Áður fyrr var bannað að fara í mál fyrir dómsstólum  til að fá kröfur að fullu greiddar sem keyptar höfðu verið með miklum afslætti.  Í Bandaríkjunum, Frakklandi og Belgíu er hægt að fara í mál við t.d. íslensk stjórnvöld til að tryggja fullar endurgreiðslur á kröfum sem ríkið ábyrgist.

Sú staðreynd að hrægammasjóðir eru helstu kröfuhafar Íslands ógnar efnahagssjálfstæði landsins.  Mér skilst að ætlun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hafi verið að kaupa upp kröfur á föllnu bankanna en Barroso, framkvæmdastjóri ESB, hafi í símtali við Geir talað gegn því að íslensk stjórnvöld reyndu að kaupa upp kröfur á föllnu bankana fyrir slikk. Uppkaupin hefðu haldið hrægammasjóðunum frá landinu. Gott dæmi um hvernig hrægammasjóðir geta knésett ríkissjóð landa er Argentína. Um aldamótin keyptu hrægammasjóðir upp  hluta af erlendum skuldum Argentínu á 20% af nafnvirði þeirra.  Þegar hagkerfið lenti í erfiðleikum 1999-2002 ruddust sjóðirnir inn á gjaldeyrismarkaðinn til að koma kröfum sínum í verð sem ýtti undir greiðsluþrot argentíska ríkissjóðsins.

Hrægammasjóðir á Íslandi

Nú standa yfir nauðasamningar við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings en stór hluti þeirra eru að öllum líkindum hrægammasjóðir. Upphafleg hugmynd stjórnarflokkanna var að leyfa slitastjórnum að gefa út skuldabréf í erlendum myntum sem útborgun fyrir eignir gömlu bankanna.  Ég hef ítrekað varað við þessari óraunhæfu lausn þar sem hún mun gera erlendar skuldir þjóðarbúsins ósjálfbærar. Þessi lausn þýðir í raun að hrægammasjóðir fá Ísland eða útflutningstekjur okkar um ókomna framtíð á silfurfati.

Í Morgunblaðinu hafa sérfræðingar hvatt til þess að Seðlabankinn fái yfirráð yfir erlendum eignum þrotabúanna, sem eru um 1.800 milljarðar króna, til að  knýja fram hagstæða samninga eða viðunandi lausn á 850 milljarða króna innlendri eign búanna sem er hluti snjóhengjuvandans. Hættan við að láta þrotabúin greiða kröfur hrægammasjóða með íslenskum krónum er að mikið fé fer í umferð sem kynda mun undir verðbólgu og óstöðugleika. Hrægammapeningar munu flæða um hagkerfið í leit að skjótfengum hagnaði og glufum á gjaldeyrishöftunum.

Réttum hrægammasjóðum ekki hjálparhönd!

Hrægammasjóðir munu við slit þrotabúa Glitnis og Kaupþings, eignast Arion banka og Íslandsbanka.  Það dugar ekki að keyra þrotabúin í gjaldþrot því hrægammarnir munu kaupa hlut þrotabúanna og ríkisins í nýju bönkunum til að tryggja stöðu sína. Á Alþingi er frumvarp til umfjöllunar sem veitir fjármálaráðherra leyfi til að selja eignarhlut ríkisins í nýju bönkunum.  Frumvarpið er skýrt merki um að stjórnvöld átta sig ekki á hættunni sem stafar af hrægammasjóðum. Á meðan hver og einn hrægammasjóður er minnihlutaeigandi í nýju bönkunum eru þeir hæfir eigendur samkvæmt íslenskum lögum. Hins vegar er ljóst að bankar í eigu margra  hrægammasjóða munu ógna fjármálastöðguleika þjóðarbúsins. Hrægammasjóðirnir munu sem eigendur bankanna beita öllum tiltækum ráðum til að hámarka endurheimtur og flýja með fé sitt út úr hagkerfinu um leið og tækifæri gefst.

Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa kynnt mér sögu hrægammasjóða að það þjóni engum tilgangi að semja við þá. Þeir munu ekki fást til að semja um að fá aðeins rétt rúmlega það sem þeir greiddu fyrir kröfurnar þar sem þeir hafa engra hagsmuna að gæta hér á landi. Ef alþjóðaþrýstingur myndast á þá að semja við okkur, þá er alltaf hætta á að þeir flyti kröfurnar sem þeir hafa samið um lækkun á yfir í nýtt eignarhaldsfélag (sbr. Líbería). Nýja eignarhaldsfélagið kemur svo með kröfu um fulla endurgreiðslu krafnanna. Marinó G. Njálsson hefur lagt til að ríkið yfirtaki kröfur á þrotabú föllnu bankanna með eignarnámi. Eignarnámsvirðið sem ríkið þyrfti að greiða fyrir kröfurnar yrði sennilega mun hærra en verðið sem hrægammasjóðirnir greiddu fyrir þær.  Eignarnámið fælir hrægammasjóðina frá bankakerfinu en ekki frá landinu, þar sem þeir eiga kröfur á önnur fjármálafyrirtæki, aflandskrónur og ríkisskuldabréf sem borið hafa háa ávöxtun frá hruni. Ísland losnar ekki undan hrægammasjóðunum nema með því að taka upp nýkrónu. Hrægammarnir sitja þá uppi með kröfur og eignir í gömlum krónum sem þeir þurfa að skipta yfir í nýkrónu á gengi sem endurspeglar verðið sem þeir greiddu fyrir upphaflegu kröfuna og lita sem enga ávöxtun eftir hrun.

Aðgengilegt efni um hrægammasjóði:

BBC – Greg Palast þáttur um hrægammasjóði frá 2007:

Part 1: http://www.youtube.com/watch?v=Qbxj8azQb80

Part 2:http://www.youtube.com/watch?v=d7-w7b4Bq6I&feature=relmfu

Hrægmmasjóðir (Ísland nefnt): http://www.youtube.com/watch?v=RAYy2gAtb_c&list=PLCA6934A141214045&index=1&feature=plpp_video

www.jubileedebtcampaign.org.uk.

http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/world_news_america/8546628.stm

Comments are closed.