Við erum að renna út á tíma.
Hætta er á að gjaldeyrishöftin bresti við slit þrotabúa gömlu bankanna eða þegar búið er skipta upp eignum þeirra millikröfuhafanna. Nú er verið að ganga frá slitum og möguleiki skapast við það fyrir kröfuhafa gömlu bankanna að ná yfirráðum í Arion banka og Íslandsbanka. Kröfuhafarnir eru hákarlar sem keyptu kröfur sínar á hrakvirði. Hákarlarnir munu nota bankana sína til að fara í kringum höftin og slá eign sinni á gjaldeyri sem þjóðin þarf að nota til að greiða fyrir innflutning með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning.
Ef höftunum verður leyft að bresta vegna aðgerðarleysis, þá munu efnahagslegar hörmungar leika þá sem síst skyldi afar illa. Misskiptingin verður óbærilega milli þeirra eignalausu með tekjur í krónum og hinna sem koma sér og auði sínum út úr hagkerfinu. Ríkið og fyrirtæki með erlend lán munu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar.
Við verðum að hefja strax stýrt afnám gjaldeyrishaftanna til að lágmarka skaðann fyrir þjóðina af rangri efnahags- og peningastjórn. Eina leiðin sem er í boðið og felur ekki í sér greiðslufall er upptaka Nýkrónu með mismunandi skiptigengi. Hrægömmum sem eiga froðukrónur og bólueignir verður boðið að skipta yfir í Nýkrónu á hrakvirði eða á afar lágu gengi gömlu krónunnar. Ef þeir hafna því, þá halda þeir eignarrétti á gömlu krónunum sínum.
Það er komið að ögurstundu. Það verður að stýra með handafli afnámi haftanna,þannig að snjóhengjan tilheyri foríðinni en hangi ekki yfir þjóðinni eins og mara sem dregur úr þrótti efnahagslífsins. Ég óttast hins vegar að ríkisstjórnin og Seðlabankinn láti hugleysi eða aðgerðarleysi verða til þess að þjóðin fari í gegnum aðrar efnahagshörmungar.