Vandamálið í íslensku efnahagslífi er að skuldir fyrirtækja og heimila eru mun hærri en eignir þeirra. Þegar bankarnir hrundu og eignabólan sprakk, þá hrapaði verð hlutabréfa og fasteignaverð lækkaði á sama tíma og skuldirnar héldu áfram að hækka vegna verðbólguskota í kjölfar gengishruns. Á bak við skuldir fyrirtækja og heimila eru verðbréf í eigu aflandskrónueigenda og kröfuhafa. Eignir sem urðu að hluta til vegna stöðugt hækkandi eignaverðs fyrir hrun og hafa síðan orðið verðmeiri vegna hárra vaxta og verðbóta eftir hrun. Þessar eignir nema nú um 1.000 milljörðum og eru að mestu í eigu erlendra aflandskrónueigenda og kröfuhafa gömlu bankanna sem vilja skipta þeim yfir í erlenda gjaldmiðla.
Seðlabankinn á ekki gjaldeyri til að fjármagna útstreymi þessara eigna út úr hagkerfinu. Gjaldeyrissvarasjóðurinn er rúmlega 1.000 milljarðar en hann er allur fenginn að láni. Ef sjóðurinn yrði notaður til að fjármagna útstreymið, þá stæðu eftir skuldir sem myndu fljótlega leiða til ósjálfbærrar skuldsetningar ríkissjóðs nema okkur takist að afla mun meiri útflutningstekna en nú er raunin. Í dag nemur afgangurinn á viðskiptajöfnuði (þegar búið er að nota erlendar tekjur til að greiða fyrir innflutning) um 100 milljörðum og dugar upphæðin aðeins til að fjármagna greiðslur af erlendum lánum þjóðarbúsins. Afar litlar líkur eru á að okkur takist að auka þennan afgang á á næstu árum. Samkeppnishæfni útflutningsgreina og ferðamannaiðnaðarsins er í hámarki vegna þess að gengi krónunnar er um 20% lægra en meðaltalið síðast liðin 30 ár og laun því lág samanborðið við viðskiptalöndin. Umsvif sjávarútvegsins hafa aukist vegna aflaaukningar og aldrei hafa jafn margir ferðamenn komið til landsins. Það þarf því að leita annarra leiða en að auka skuldsetningu þjóðarinnar til að laga ójafnvægið í hagkerfinu. Svar núverandi stjórnarflokka er að herða gjaldeyrishöftin og taka síðan upp evru. Höftin magna upp vandann og upptaka evrunnar lagar ekki ójafnvægið í hagkerfinu.
Höftin auka vandann
Ástæða þess að aflandskrónueigendur og kröfuhafar sætta sig við gjaldeyrishöft er að eignir þeirra bera ávöxtun sem er hærri en almennt gerist í nágrannalöndunum. Auk þess gera höftin Seðlabankanum kleift að stýra útstreymi fjármagns þannig að ekki komi til gengishruns sem myndi rýra verulega eignir þeirra sem ekki yrðu fyrstir til að skipta krónueignum sínum í erlendan gjaldmiðil. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) sem stofnaður var til að verja hagsmuni fjármagnseigenda þrýsti því á hækkun stýrivaxta upp í 18% í nóvember 2008 og innleiddi gjaldeyrishöft í formi boða og banna. Hugmyndir mínar um að leggja háan skatt á útstreymi fjármagns sem erlendir fjárfestar gætu lækkað með langtíma fjárfestingu aflandskróna í íslensku viðskiptalífi voru slegnar strax út af borðinu og talað um brot á EES samningum. Slíkur (Lilju)skattur hefði gert okkur kleift að losna við óþreyjufulla aflandskrónueigendur og afla ríkissjóðs mikilla skatttekna sem dregið hefði úr þörf fyrir skattahækkanir og niðurskurð í heilbrigðis- og menntamálum. Fjárfestingar aflandkrónueigenda til lengra tíma hefði auk þess dregið úr samdrættinum eftir bankahrunið. Beinn og óbeinn kostnaður skattgreiðenda af gjaldeyrishöftum í formi boða og banna er orðinn gífurlegur og brýnt að afnema þau.
Aflandskrónueigendur og erlendir kröfuhafar hafa verið óþreytandi að leita að glufum í höftunum sem kallað hefur á sífellt harðari lagasetningu. Nú síðast innleiddu stjórnarflokkarnir m.a. í lög bann við að gera upp við þrotabú gömlu bankanna hér á landi en slík uppgjör áttu að fara fram fljótlega. Ástæðan er sú að flestir kröfuhafar eru erlendir og munu þeir vilja skipta krónueignum sínum yfir í erlenda gjaldmiðla. Með þessu banni voru stjórnarflokkarnir í raun að stöðva greiðslur úr þrotabúi Landsbankans hér á landi upp í Icesave „skuldbindinguna“. Meirihluti þessara flokka samþykkti ítrekað nauðasamninga fyrir hönd skattgreiðenda með þeim orðum að Ísland yrði að standa við svokallaðar alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Varnaðarorð mín sumarið 2009 um að við gætum ekki staðið undir þessari skuldbindingu áttu m. ö. o. við rök að styðjast og voru staðfest með þessu banni. Það er því orðið ljóst að við getum ekki verið án hafta án þess að taka upp annan gjaldmiðil.
Evran er ekki lausnin
Samfylkingin hefur lagt hvað mesta áherslu á upptöku evrunnar sem lausn á öllum okkar efnahagsvandamálum og ekki síst gjaldmiðilskreppunni. Flokkurinn hefur komist upp með að nefna ekki á hvaða gengi krónunnar upptaka evrunnar fari fram og hvort nota eigi fleiri en eitt gengi þegar skipt verður yfir í evrur. Gengi krónunnar mun hafa áhrif á það hvort þjóðin fari fátæk inn í ESB eða ekki. Umræðunni um mismunandi skiptigengi er alltaf drepið á dreif með fullyrðingum að vandinn sé ekki ójafnvægi milli verðmætis eigna og skuldbindinga þjóðarinnar heldur að eignir og skuldbindingar þjóðarinnar séu ekki í sömu höndum.
Ríkisstjórnin er í afneitun. Vandamálið snýst nefnilega um að snúa eignatilfærslunni eftir hrun við og færa eignir frá eignafólkinu til þeirra sem skulda. Enginn áhugi hefur verið á slíkri eignatilfærslu sem myndi fela í sér stórfelldan skatt á eignir eins og verðbréfaeignir og innistæður. Allt kapp hefur verið lagt á að vernda eignarétt eignafólks í landinu eftir hrun. Ef eignir verða ekki færðar til þeirra skuldsettu, þá mun áfram fjölga í hópi þeirra 26.000 einstaklinga og 6.300 fyrirtækja sem í dag eru í alvarlegum vanskilum eftir upptöku evrunnar. M.ö.o. öll okkar vandamál hverfa ekki við upptöku evrunnar.
Þegar ójafnvægi ríkir í hagkerfinu vegna þess að skuldbingingar þjóðarinnar eru hærri en eignir hennar er nauðsynlegt að nota mismunandi skiptigengi. Lægra gengi á skuldbindingum þjóðarinnar (sem aflandskrónueigendur og erlendir kröfuhafar eiga) er þá notað til að koma á jafnvægi milli eigna og skuldbindinga þjóðarinnar við upptöku evrunnar. Mismunandi skiptigengi gengur ekki á eignarrétt körfuhafa og er í raun eina leiðin til að ná fram leiðréttingu á verðmæti froðueigna sem urðu til vegna skuldsettra kaupa á verðbréfum til að ná fram hækkun á verði þeirra og verðtryggingarinnar. Leiðrétting mun þýða að hægt verði að draga úr vanskilum fyrirtækja og einstaklinga eftir upptöku evrunnar.
Leiðrétting í gegnum eignatilfærslu til þeirra sem skulda eða mismunandi skiptigengi við upptöku annars gjaldmiðils eru leiðir til að draga úr ójafnvæginu í hagkerfinu. Ríkisstjórn sem ekki leiðréttir ójafnvægið mun keyra hagkerfið í þrot
Pingback: Lausnin er ekki evran heldur leiðrétting « Samstaða